Áfram höldum við með Söngvakeppnisviðtöl FÁSES. Arnar Jónsson og Rakel Pálsdóttir syngja lagið Til mín eða Again á ensku laugardaginn 25. febrúar nk. Lagið, sem er eftir Hólmfríði Ósk Samúelsdóttur, er hreinræktuð Eurovision ástarsorgarballaða og unaðsleg á að hlýða. Að auki hafa þau lagt í metnaðarfulla myndbandsgerð – endilega kíkið á það. Þess má geta að þessi vinahópur er algerlega sprottinn upp úr Söngvakeppninni; Rakel og Hólmfríður kynntust í Söngvakeppninni 2014 þegar þær voru bakraddir fyrir Grétu Mjöll í Eftir eitt lag. Í þeirri sömu keppni var Arnar bakrödd fyrir Vigni Snæ í laginu Elsku þú og ástin milli hans og Hólmfríðar kviknaði í græna herberginu. Takk Söngvakeppnin og takk RÚV!
Þar sem Rakel og Arnar eru m.a. þekkt fyrir að hafa verið í röddum í Söngvakeppninni, og fleiri úr þeirra teymi, (sjá til dæmis hér, hér, hér og hér) er ekki úr vegi að hefja viðtalið á því að komast að því hvað þarf til að vera góð bakrödd. Einnig lék okkur forvitni á að vita hvernig keppendum lítist almennt á tungumálaregluna í keppninni.
FÁSES.is dreif að sjálfsögðu svona hressa keppendur í smávegis sprell. Arnar og Rakel voru greinilega funheit eftir æfingu og munaði ekkert um að taka nokkra norska Eurovision slagara, I´m not afraid to move on og ódauðlega Wig Wam smellinn In my dreams. Þar sem allir í Tíl mín-teyminu hafa keppt með einu eða öðrum hætti í Söngvakeppninni áður stóðumst við heldur ekki málið og tókum þau í smávegis danstengt bakraddapróf. Hvað ætli það sé nú eiginlega?