Annað undanúrslitakvöld Söngvakeppninnar 2016 fór fram í gær og aftur var boðið upp á dæmalaust góða skemmtun í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision. Eins og þið vitið eflaust öll nú komust lögin Spring yfir heiminn, Á ný og Augnablik áfram á úrslitakvöldið næstkomandi laugardag. Samkvæmt heimildum FÁSES mun RÚV ekki nýta sér heimild í reglum Söngvakeppninnar til að bæta við sjöunda laginu, svokölluðum Leif heppna (e. wild card).
Högni Egilsson, oftast kenndur við Hjaltalín, flutti All out of luck ásamt Glowie í hléi og gerði það algjörlega að sínu. Pollapönkarar komu einnig fram og tóku skothelda Söngvakeppnissyrpu þar sem komu fyrir Sólarsamba, Stattu upp, Eldgos, Eldur, Karen og Lífið er lag.