Samþykktir FÁSES

Samþykktir fyrir Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva FÁSES 

Heiti og varnarþing
1. gr.
Félagið heitir Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision Song Contest), skammstafað FÁSES. Heiti félagsins á ensku er OGAE-Iceland og á frönsku OGAE- Islande. Félagið er frjáls félagasamtök. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

Tilgangur og hlutverk
2. gr.
Félagið er vettvangur áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, hér eftir Eurovision, til að deila áhuga sínum á keppninni í blíðu og stríðu. Tilgangur félagsins er að standa að viðburðum sem tengjast keppninni og gera félögum kleift að deila áhugamálum varðandi  keppnina.

Hlutverk félagsins eru einnig að vera upplýsingaveita um Eurovision á Íslandi og vera tengiliður við alþjóðasamfélag áhugafólks um Eurovision.

Félagsaðild
3. gr.
Félagsaðild að FÁSES er opin öllum 13 ára og eldri sem hafa íslenska kennitölu. Börn 12 ára og yngri geta fengið aðild sé foreldri/forráðamaður þeirra einnig félagi. Aðildarumsóknir einstaklinga sem ekki hafa íslenska kennitölu skulu teknar fyrir og samþykktar á aðalfundi. Skilyrði fyrir inngöngu er greiðsla félagsgjalda samkvæmt samþykktum þessum. Félagar samþykkja einnig að fara eftir ákvæðum samþykkta þessa.

Við inngöngu í félagið fær hver félagi úthlutað sérstöku félagsnúmeri og félagsskírteini sem endurnýjast í hvert skipti er félagsgjald er greitt eða árlega. Félagsgjöld skulu innheimt að hausti ár hvert og gilda þau fyrir tímabilið 1. ágúst til 31. júlí.

Ekki er tekið á móti nýjum félögum sex vikum fyrir aðalkeppni Eurovision (Eurovision Song Contest). Skráning nýrra félaga hefst aftur tveimur vikum eftir aðalkeppni Eurovision.

Ákveði félagi að segja sig úr félaginu skal erindi þess efnis berast stjórn skriflega. Úrsögn tekur gildi strax og erindi hefur borist stjórn. Ekki er mögulegt að fá endurgreidd félagsgjöld ef félagi segir sig úr félaginu á miðju félagsári.

Réttindi og skyldur félaga
4. gr.
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi. Stjórn leggur fram tillögu að félagsgjaldi. Einfaldann meirihluta þarf til að samþykkja gjaldið.

Allir gildir félagar skulu greiða félagsgjöld að hausti, samkvæmt ákvörðun stjórnar FÁSES sem tekin er með hæfilegum fyrirvara, til að geta nýtt forkaupsrétt á miðum á Eurovision.  Félagsgjöld greidd á tímabilinu sem tiltekið er í 3. mgr. 3. gr. og fram á haust tilheyra næsta félagsári. Greiði félagi ekki félagsgjöld endurnýjast ekki félagsskírteini hans. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld í tvö ár missir hann félagsnúmerið sitt og er talið að hann sé ekki lengur meðlimur í félaginu.

Innifalið í félagsgjaldi er félagsskírteini, forkaupsréttur á miðum á Eurovision, fréttabréf félagsins, réttur til setu á félagsfundum og forgangur á viðburði sem haldnir eru á vegum félagsins. Félagið áskilur sér rétt til að krefjast greiðslu vegna sérstakra viðburða félagsins í undantekningartilvikum.

Hver félagi hefur rétt á að kaupa einn miða á Eurovision í gegnum FÁSES.

5. gr.
Félagar samþykkja að virða mannhelgi og mannréttindi annarra félaga FÁSES sem og annarra systurfélaga erlendis. Félagar skulu virða hvern annan og undir engum kringumstæðum sýna fordóma eða mismuna öðrum félögum.

Verði félagi uppvís að því að brjóta gegn samþykktum þessum, eða öðrum landslögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni, í starfi sínu innan félagsins er stjórn heimilt að vísa viðkomandi úr félaginu án tafar. Slík frávísun skal berast viðkomandi félaga skriflega.

Verði félagi uppvís að því að sækja um miða á aðalkeppni Eurovision í gegnum fleiri en einn OGAE aðdáendaklúbb missir hann forkaupsrétt á miðum á aðalkeppni Eurovision í gegnum FÁSES næstu tvö ár þar á eftir.

Stjórn
6. gr.
Í stjórn skulu kosnir 5 aðalfulltrúar, formaður, gjaldkeri, ritari, alþjóðafulltrúi og kynningar- og viðburðarstjórnandi. Auk þess skulu kjörnir 1. og 2. varafulltrúi. Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Kjörtímabil aðalfulltrúa í stjórn er tvö ár en varafulltrúa eitt ár. Á stofnfundi skulu formaður og ritari vera kosnir til tveggja ára en gjaldkeri, alþjóðafulltrúi og kynningar- og viðburðarstjórnandi til eins árs. Á fyrsta aðalfundi eftir stofnfund verður því aðeins kjörið í embætti gjaldkera, alþjóðafulltrúa og kynningar- og viðburðarstjórnanda og þá til tveggja ára. Á öðrum aðalfundi félagsins verða aðeins kjörnir formaður og ritari. Á þriðja aðalfundi verður kjörið í embætti gjaldkera, alþjóðafulltrúa og kynningar- og viðburðarstjórnanda og áfram koll af kolli þannig að aldrei sé kjörið um öll sæti á sama fundi.

Berist ekki framboð í öll embætti er stjórn heimilt að skipta í stöður og/eða gera breytingar á stjórn eftir þörfum.

Kjörgengir til stjórnar eru allir félagar sem greitt hafa félagsgjald. Meirihluti stjórnar skal þó alltaf vera 18 ára eða eldri enda ber hún ábyrgð á fjárreiðum félagsins.

Formaður boðar stjórnarfundi, undirbýr þá og stýrir þeim. Ritari tekur við verkefnum formanns í fjarveru hans. Stjórnarfundir skulu vera haldnir að minnsta kosti sex sinnum á ári. Varafulltrúar hafa rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt en hafa eingöngu atkvæðarétt í fjarveru aðalfulltrúa.

Meginverkefni stjórnar skulu vera:
a. Að halda utan um skráningu félaga, innheimta félagsgjöld og gera félögum kleift að nálgast miða á Eurovision keppnir í samstarfi við OGAE international.
b. Að koma fram fyrir hönd félagsins og sjá um almenn samskipti fyrir hönd félagsins.
c. Útgáfa fréttabréfa um málefni félagsins og starfræksla heimasíðu félagsins.
d. Að hafa umsjón með fjárreiðum félagsins.
e. Að ráða fram úr öðrum málum er varða starfsemi félagsins eða félaga að öðru leyti.

Aðal- og félagsfundir
7. gr.
Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar og löglegra félagsfunda. Allir félagar sem greitt hafa félagsgjöld eiga rétt á að sækja aðalfundi og aðra félagsfundi með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Hver félagi fer með eitt atkvæði. Ekki er heimilt að framselja atkvæði sitt til annars aðila. Auk þess hafa félagslegir skoðunarfulltrúar seturrétt á fundinum og njóta þar málfrelsis og tillöguréttar séu þeir ekki félagar. Stjórn félagsins er heimilt að bjóða gestum á aðalfundi og aðra félagsfundi og njóta þeir þá málfrelsis á fundunum.

8. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn að hausti ár hvert þó eigi síðar en 15. október. Stjórn skal boða til aðalfundar með að minnsta kosti 14 daga fyrirvara. Boðað skal til fundarins með tölvupósti til félaga, á heimasíðu félagsins eða með almennum pósti. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað samkvæmt samþykktum þessum. Gögn sem leggja á fyrir fundinn skulu berast félögum eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund.

Á aðalfundum skal taka eftirfarandi mál fyrir:
1.Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2.Skýrsla stjórnar kynnt og tekin til umræðu
3.Reikningar félagsins kynntir, teknir til umræðu og kosninga.
4.Lagabreytingar
5.Kosning til stjórnar
6.Kosning félagslegra skoðunarfulltrúa
7. Önnur mál.

Stjórn er heimilt að setja aðra liði á dagskrá aðalfundar telji hún það nauðsynlegt.

9. gr.
Allir félagar geta óskað eftir því að félagsfundir séu haldnir. Félagsfundir eru einungis löglegir boði stjórn til þeirra eða a.m.k. 15 félagar hafa óskað eftir því. Sömu reglur gilda um boðun félagsfunda og aðalfunda að því undanskildu að félagsfund þarf ekki að boða nema með að minnsta kosti 7 daga fyrirvara.

Fjármál
10. gr.
Reikningsár félagsins skal vera frá 1. ágúst til 31. júlí. Ársreikninga skal gera fyrir félagið og skulu þeir yfirfarnir af félagslegum skoðunarfulltrúum. Stjórn er heimilt senda reikninga félagsins til löggilts endurskoðanda telji hún þörf á því.

11. gr.
Aðalfundur kýs tvo félagslega skoðunarfulltrúa reikninga til eins árs í senn. Félagslegir
skoðunarfulltrúar fara yfir reikninga félagsins og kanna bókhaldsgögn þess. Skýrsla félagslegra skoðunarfulltrúa skal vera hluti af ársreikningi félagsins.

Breytingar á samþykktum
12. gr.
Samþykktum þessum verður eingöngu breytt á löglegum aðalfundi með samþykki 2/3 hluta fundarmanna. Allar tillögur að breytingum skulu berast stjórn félagsins að minnsta kosti 10 dögum fyrir aðalfund og skal stjórn tryggja að breytingatillögur séu sendar út með fundargögnum.

Félagsslit
13. gr.
Ákvörðun um slit á félaginu skal tekin á löglegum aðalfundi eða félagsfundi. Fundurinn skipar þrjá einstaklinga til að fara með slit á félaginu og hvernig skuli ráðstafa eignum þess. Eignir félagsins skulu aldrei renna til félaga heldur skal leitast við að ráðstafa eignum til málefnis við hæfi.

Gildistími
14. gr.
Samþykktir þessar öðlast gildi á stofnfundi samtakanna. Breytt á aðalfundi 1. nóvember 2012, 13. nóvember 2013, 29. október 2015, 26. október 2017, 24. október 2018 og 21. september 2019.

Ákvæði til bráðabirgða
Frá og með stofnfundi situr 6 manna bráðabirgðastjórn sem fer með réttindi og skyldur félagsins samkvæmt samþykktum þessum. Bráðabirgðastjórn situr fram að fyrsta aðalfundi félagsins sem halda ber fyrir 15. Nóvember 2012. Bráðabirgðastjórn samanstendur af formanni, ritara, gjaldkera, alþjóðafulltrúa, kynningarfulltrúa og viðburðarstjórnanda.

Eyrún Ellý Valsdóttir, formaður
Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, ritari
Auður Geirsdóttir, gjaldkeri
Flosi Jón Ófeigsson, alþjóðafulltrúi
Haukur Johnson, kynningarfulltrúi
Alma Tryggvadóttir, viðburðarstjórnandi

Stofnsamþykktir FÁSES 4.8.2011