Júlí Heiðar og Þórdís Birna sótt heim

ss07

Hefst þá Söngvakeppnisæðið enn á ný og þar með æðisgengin umfjöllun FÁSES.is þar sem allir keppendur eru sóttir heim. Líkt og lesendur eflaust muna var ákaflega metnaðarfullt FÁSES-prógramm lagt fyrir allar keppendur Söngvakeppninnar í fyrra þar sem kannað var hvort keppendur hefðu það sem þarf til að púlla eins og eitt stykki Eurovision Song Contest í tvær vikur í Stokkhólmi. Í ár sláum við ekki slöku við en reynum að hafa þetta meira á léttu nótunum til að taka keppendur ekki óþarflega mikið á taugar.

Fyrst tókum við hús á Júlí Heiðari og Þórdísi Birnu, ásamt öllum sunnlensku meðreiðarsveinum þeirra í keppninni. Eins og þið kunnið aftur á bak og áfram tóku þau einnig þátt í keppninni í fyrra með lagið Spring yfir heiminn. Þeim gekk vel og komust áfram í úrslitin í Laugardalshöll. Í ár eru þau mætt til að gera enn betur með kantrískotinn smell eftir Júlí Heiðar og Guðmund Snorra (jú hann flutti einmitt lagið með þeim í fyrra) sem ber heitið Heim til þín eða Get back home á ensku. Í ár hafa margir keppendur lagt í metnarfulla myndbandsgerð – sem við erum ótrúlega ánægð með því oft hefur ekki verið fjármagn í slíkt. Júlí og Þórdís hafa gert einmitt skellt í eitt gott stemningsmyndband.

FÁSES.is truflaði Heim til þín gengið við æfingu fyrir Söngvakeppnina í húsnæði Listaháskólans en þar stundar Júlí Heiðar einmitt leiklistarnám. Við ræddum að sjálfsögðu kjördæmakosninguna í fyrra, Eurovision-taktíkina, stuðið og stemninguna á sviðinu og ekki síst hvað það er mikilvægt að vera ástfanginn (jú það hjálpar alltaf til!).

Sumir aðdáendur hafa bent á líkindi Heim til þín og litháenska Eurovisionframlagsins This Time frá 2015. Var því ekki úr vegi að nauða um eins og eina yfirbreiðu frá þessu hressa liði. Að okkar mati taka Júlí og Þórdís Moniku og Vaidas í nefið! Hver veit kannski taka þau bara þátt í litháísku undankeppninni, Eurovizijos dainu konkurso nacionaline atranka, á næsta ári.

Við þökkum Heim til þín genginu kærlega fyrir viðtalið.

Heim til þín teymið – ásamt fréttaskrifurum FÁSES