Um OGAE

OGAE stendur fyrir Organisation Générale des Amateurs de l’Eurovision. OGAE eru alþjóðleg samtök og stærsti aðdáendaklúbbur heims þegar kemur að Eurovision. Þó fyrsta Eurovision keppnin hafi verið haldin árið 1956 var fyrsti OGAE klúbburinn ekki stofnaður fyrr en 1984 í Finnlandi. Öll lönd sem taka þátt, eða hafa tekið þátt, í Eurovision geta stofnað sinn eigin aðdáendaklúbb og flest lönd hafa nú sett á fót opinbera aðdáendaklúbba í gegnum OGAE-samtökin enda fara vinsældir Eurovision sívaxandi.

Nú eru starfræktir aðdáendaklúbbar í 44 löndum. Þeir aðdáendaklúbbar sem starfræktir eru í einstökum ríkjum Evrópu ásamt OGAE-samtökunum sjálfum hafa sama markmið – að sameina aðdáendur Eurovision keppninnar, skiptast á upplýsingum og hjálpast að við að vekja, og viðhalda, áhuga á Eurovision söngvakeppninni ásamt aðdáendaklúbbum í öðrum löndum. Aðdáendur í þeim löndum sem ekki hafa sérstakan aðdáendaklúbb sameinast undir merkjum OGAE Rest of the World klúbbsins sem stofnaður var árið 2004. Lista yfir þau lönd sem hafa sérstakan OGAE aðdáendaklúbb má sjá hér.

OGAE-samtökin standa að þremur keppnum meðal aðdáenda í tengslum við Eurovision keppnina. Þessar keppnir eru OGAE Song Contest, OGAE Second Chance Contest og OGAE Video Contest. Einnig skipuleggja samtökin stóru aðdáendakönnunina fyrir hverja aðalkeppni Eurovision (OGAE Big Poll) þar sem aðdáendur kjósa sín uppáhaldslög í keppninni. Það er því ljóst að fyrir mestu aðdáendurna er heill heimur af Eurovision keppnum fyrir utan aðalkeppnina sem hægt er að fylgjast með allt árið!