Ísraelar sigurvegarar í OGAE Big Poll 2018


FÁSES-ingar, vi har et OGAE-resultat! Niðurstöður OGAE Big Poll 2018 eru orðnar ljósar og í takt við veðbankana trónir Ísrael á toppnum. Fyrstu 10 sætin röðuðust svona:

  1. Ísrael – 456 stig
  2. Frakkland – 352 stig
  3. Finnland – 226 stig
  4. Ástralía – 202 stig
  5. Tékkland – 181 stig
  6. Búlgaría – 178 stig
  7. Belgía – 143 stig
  8. Grikkland – 119 stig
  9. Kýpur – 106 stig
  10. Danmörk – 99 stig

Ísrael fékk tólfu frá 27 klúbbum og tíu frá 10 klúbbum af 44 sem kusu. Athygli vekur að aðeins einn klúbbur gaf Ísrael ekki stig en það var eistneski klúbburinn. Einnig er áhugavert að sjá að Svíar, konungar nútíma Eurovision-popptónlistar, ná ekki inn á topp 10. Þeir eru reyndar ekki langt frá því, sitja í 11. sæti aðeins 8 stigum frá Dönum. Alls kusu 4.045 meðlimir OGAE aðdáendaklúbba, þar á meðal 90 FÁSES-liðar.

14 lönd fengu ekkert stig í ár sem er talsvert meira en í fyrra en þá voru það 9 lönd. Reyndar var Rússum haldið inni í OGAE Big Poll í fyrra vegna heiðursmannasamkomulags og var Rússland eitt þeirra landa sem fékk 0 stig. Sem kunnugt er tefla Rússar fram sömu söngkonu og þeir hugðust gera í fyrra og hún Julia getur glaðst yfir því að hafa náð að bæta sig. Í ár fékk hún alveg eitt heilt stig!