Fyrsti dagur æfinga í Lissabon


Þá er fyrsti æfingadagur í Lissabon runnin upp og fréttaritarar FÁSES.is búnir að koma sér fyrir í blaðamannahöllinni sem er staðsett í Pavilhão De Portugal við hliðina á Altice Arena þar sem aðalkeppnin fer fram.

Aserbaídsjan – Aisel syngur X My Heart

Mynd: Aisel

Aisel frá Aserbaídsjan byrjar lagið X My Heart liggjandi á gólfinu léttklædd í sigurvegaralitinn hvítan og að sjálfsögðu berfætt. Hún hleypur eilítið um og síðan upp á pall sem er í laginu eins og ísjaki (sem er pínu skrýtið því hún er léttklædd og sérlega dugleg að sýna nærbuxurnar). Hún er með fjórar bakraddir með sér á sviðinu sem einnig standa á ísjakapalla. Um miðblik lagsins fáum við meira flott gimmik; glimmer on-screen-effect og að sjálfsögðu keyra Aserar vindvélina á fullu blasti. Aisel söng vel ágætlega á æfingunni en er kannski að spara kraftinn þar til keppnisdagur rennur upp.

Ísland – Ari Ólafsson syngur Our Choice

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir

Ari Ólafsson mætir í hvítum satínjakkafötum með rauðu tribal-printi, rauðri skyrtu og að sjálfsögðu rauðum skóm á sviðið. Vakti dressið hans Ara athygli meðal blaðamanna hér í Lissabon en Ýr Þrastadóttir hannaði sviðsbúninginn. Sviðsetningin er mjög breytt frá því sem við sáum í Söngvakeppninni, nú er hvorki hljómsveit né píanó á sviðinu heldur standa bakraddirnar fimm, Þórunn Erna Clausen, Vignir Snær Vigfússon, Arna Rún Ómarsdóttir, Erla Stefánsdóttir og Gunnar Leó Pálsson, á bak við Ara á sviðinu. Sviðið er blálitað í byrjun en endar í gulu og rauðu með reyk á gólfinu í lokinu. Ari tók þrjú rennsli og ljóst er að menn eru að prufa sig áfram með myndavélaskotin til að finna það sem best hentar. Ari sló að sjálfsögðu ekki feilnótu í söngnum frekar en fyrri daginn og eftir æfingu hans var klappað í blaðamannahöllinni.

Albanía – Eugent Bushpepa syngur Mall

Mynd: Renuar Locaj

Eugent mætir á sviðið með rokksveitina sína eins og í undankeppninni í Albaníu og syngur lagið Mall, sem þýðir víst “þrá” á albönsku en ekki verslunarmiðstöð! Eugent er klæddur eins konar spennitreyjujakka og reyndar passa búningar hljómsveitarmeðlima ekki mjög vel við lagið – glimmerbúningar og rokklag virkar framandi fyrir okkur. Eugent stóð sig vel á æfingu í dag og röddin er greinilega í toppstandi. Lýsingin er frekar dimm og greinilega ætla Albanir að halda smá dulúð í laginu.

Belgía – Sennek syngur A Matter of Time

Mynd: Marie Wynants

Sennek mætir ein á sviðið hér í Lissabon og þemað er greinilega að halda kúlinu með lágstemmdu atriði. Lagið byrjar með lýsingu einungis á augu Sennek en ljósamaðurinn þarf aðeins að herða sig því lýsingin skelfur svolítið. Sennek er klædd í svartan alklæðnað (buxum og einhvers konar gegnsæjum kjól) og horfir lítið í myndavélina. Hún á mjög góð rennsli í dag og er greinilega ekki í vandræðum með sönginn.

Tékkland – Mikolas syngur Lie to me

Mynd: Marie Bartošová

Mikolas mætir með stæl á sviðið sem er í bleikum litum. Með honum á sviðinu eru tveir dansarar sem breaka. Mikolas byrjar án bakpokans og setur hann svo upp eftir um eina mínútu. Þegar tvær mínútur eru liðnar af laginu færir Mikolas sig niður rampinn, en endar svo aftur upp á sviðinu. Mikolas þurfti að stöðva fyrsta rennslið vegna tæknilegra erfiðleika. Sviðssetningin er í anda myndbandsins.

Litháen – Ieva syngur When We’re Old

Mynd: Neringa Rekašiūtė

Ieva heillaði litháísku þjóðina upp úr skónum í undankeppninni þar í landi og nú mætir hún með afar eftirminnilega frammistöðu. Atriðið byrjar eflaust út í sal þar sem við giskum á að áhorfendur verði myndaðir með vasaljós. Ieva situr á sviðinu í bleiku pilsi og bleikri glimmerpeysu (hljómar verr en það er). Ieva er mjög fær söngkona og fer árennslulaust í gegnum rennslin sín hér í Lissabon. Á meðan á laginu stendur fáum við að sjá myndir af fjölskyldum og pörum sem leggja áherslu á skilaboð lagsins. Ieva endar síðan lagið með því að ganga upp á brú þar sem hún hittir fyrir eiginmann sinn og þau nudda saman nefjum. Ákaflega áhrifamikið atriði þar sem margir felldu tár í blaðamannahöllinni auk þess sem mikið var klappað fyrir When We’re Old.

Ísrael – Netta syngur Toy

Mynd: Daniel Kaminsky

Ísraelsmönnum veitir ekki að auglýsingahlénu sem verður á undan atriðinu – margt að gerast á sviðinu eins og von var á hér og það tekur tíma að koma looptækinu hennar Nettu fyrir. Netta er klædd í bleikt, rautt og svart dress með stuttu pilsi og með henni á sviðinu eru þrír dansarar og bakraddir (þessar úr myndbandinu!). Rúmlega 100 gylltar kattardúkkur sem veifa eru fyrir aftan Nettu og sviðið er baðað gulu og rauðu. Dansararnir eru í byrjun staðsettir á brúnni við sviðið sem margir keppendur ætla að nýta sér. Netta virkaði aðeins klunnaleg á sviðinu þar sem hún er eflaust ekki vön að ganga á hælum og maður minn flottir hælaskór voru það! Myndatökuskotin verða betri með hverju rennslinu en mikið er um lengri skot þegar væntanlega á að sýna áhorfendur dansa. Söngurinn var gallalaus hjá Nettu og að sjálfsögðu voru bleikar reyksprengjur. Það er mál manna hér í blaðamannahöllinni að atriðið standi ekki undir þeim rosalega væntingum sem gerðar voru til þess en síðasta rennslið hennar lofaði þó góðu. Svo ef Netta skrúfar fyrir sjarmann getur allt gerst!

Hvíta-Rússland – Alekseev syngur Forever

Mynd: Kobra Music LLC

Vá – þetta atriði er með rosalega sviðsetningu! Alekseev mætir í sigurhvítu og stendur á palli sem hækkar í lok lagsins (eins og Cezar frá Rúmeníu 2013). Hann byrjar lagið á að syngja mjög fallega til rósarinnar sem hann heldur í lófanum. Alekseev skilur rósina eftir og þá birtist dansari í rauðum kjól sem tekur rósina. Dansarinn tekur þá upp boga og skýtur rósinni aftur í lófann á Alekseev. Næst gubbar Alekseev rósablöðum á skjáinn (on-screen effect) við mikinn fögnuð hér í blaðamannahöllinni (við veltum fyrir okkur hvort rósablöðin eigi í raun að koma frá bringu Alekseev). Hann snýr sér svo við í lok lagsins og þá sjáum við rifna skyrtuna og rósir um allt bak hans. Þessi fyrsti æfingadagur í Lissabon hefur gengið mjög vel og fáir keppendur hafa klikkað á söngnum. En því miður er Alekseev ekki nægilega öruggur, en það er eflaust eitthvað sem lesendur FÁSES.is muna eftir úr undankeppninni í Hvíta-Rússlandi.

Eistland – Elina syngur La Forza

Mynd: Laura Nestor

Eftir mikil vandræði og almennt vesen gátu Eistar tryggt að grífkkjóllinn góði úr undankeppninni heima fyrir kæmi með til Lissabon (kostar um það bil 60 þúsund evrur). Elina stendur á palli á sviði og kjóllinn tekur nánast allt sviðið. Eftir því sem laginu vindur fram fáum við að sjá mismunandi grafík á kjólnum, öldur, rósablöð og í lokin risastóran spíral. Elina átti gríðarlega góða æfingu og var on spot í söngnum. Henni líður líka vel á sviðinu og það skilar sér í flutningnum. Í lok æfingar hennar var klappað hér í blaðamannahöllinni og ljóst að hún á marga aðdáendur.

Búlgaría – Equinox syngur Bones

Mynd: BNT/Bliss

Fimmmenningarnir í Equinox mæta á sviðið svartklædd og standa á misháum pöllum. Það er gaman að sjá hvað keppendur í ár hafa sett sig í skapandi stellingar þó að engir séu LED skjáirnir á sviðinu. Búlgaría vinnur mjög mikið með listræn myndatökuskot og hraðar, mjög fagmannlegar, klippingar. Við sjáum t.d. tvö myndavélaskot í einu á skjánum og síðan margföld myndavélaskot í einu. Lýsingin er hvít og ljósgræn og í lokin fáum við alvöru “Carolu-skot” með vindvélinni. Raddirnar hjá Equinox voru pottþéttar í dag og í lok lagsins sameinast þau fimm saman á einum palli. Að sjálfsögðu fengu Búlgarir gott klapp hjá blaðamönnum eftir þessa frábæru æfingu.