Tölfræðisérfræðingarnir spá í spilin


Þóranna Hrönn Þórsdóttir og Ísak Pálmason eru tölfræðisérfræðingar FÁSES.is.

Nú þegar ekki er langt þar til Eurovisiongleðin hefst fyrir alvöru er rétt að glöggva sig á árangri þátttökuþjóðanna í gegnum tíðina. Sérfræðingar FÁSES.is settust niður og greindu til öreinda úrslit allra undankeppna Eurovision frá árinu 2004 til að reyna að varpa ljósi á það hvaða þjóðir ættu mestan séns á að komast í úrslit.

Fimm af þjóðunum 37 sem keppa í undankeppnunum í ár hafa átt áskriftarsæti í úrslitum, það er, þau hafa alltaf komist í úrslit þegar þau hafa keppt í undankeppni. Þjóðirnar sem um ræðir eru Aserar, Ástralir, Rússar, Úkraínumenn og Rúmenar. Af áskriftarþjóðunum eru einungis Aserar sem keppa í fyrri undankeppninni. Það má því búast við blóðbaði í seinni undankeppninni þar sem fjórar þessara sterku þjóða keppast um sætin tíu inn í úrslitin.

Spá tölfræðinganna

Úr fyrri undankeppninni 2018 eiga eftirfarandi lönd mestan möguleika á að komast áfram: Aserbaísjan, Grikkland, Armenía, Króatía, Ísland, Ísrael, Litháen, Austurríki og Kýpur, en Albanía og Finnland standa jöfn í 10. til 11. sæti.

Úr seinni undankeppninni 2018 eiga eftirfarandi lönd mestan möguleika á að komast áfram: Ástralía, Rúmenía, Rússland, Úkraína, Svíþjóð, Ungverjaland, Georgía, Danmörk, Moldavía og Serbía.

Árangur Íslands í ár

Ari Ólafsson er annar á svið í fyrri undankeppninni sem samkvæmt tölfræðinni er alls ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Frá því árið 2004 hafa lög sem voru númer tvö á svið 11 sinnum komist áfram í lokakeppnina. Greta Salóme og Jónsi voru til dæmis önnur á svið árið 2012 og þau komust áfram í úrslitin eins og við munum öll vel eftir. Lög sem eru númer 3, 4, 5 og 11 á svið hafa sjaldnar komist áfram en lag númer tvö svo við getum bara verið mjög bjartsýn þann 8. maí nk.

Hvað tölfræði Íslands varðar og að komast upp úr undankeppnunum þá stöndum við betur að vígi en margar aðrar þjóðir, en við höfum komist áfram í meira en 50% tilvika og tvisvar verið mjög ofarlega. Sem dæmi má nefna unnum við okkar undankeppni árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún söng sig inn í hjörtu Evrópubúa og við vorum í þriðja sæti árið 2010. Je ne sais quoi við enduðum ekki ofar í lokakeppninni það árið!

Ryan O’Shaughnessy er orðinn góðvinur hans Ara, en þeir fara saman í ræktina og ná vel saman. Írar hafa þó ekki riðið feitum hesti í Eurovision síðustu ár en komust síðast upp úr undankeppninni árið 2013. Það ár keppti Ryan Dolan fyrir Íra en sá var klæddur í pleður buxur og jakka með hálfnakta trumbaslagara á sviðinu með sér. Það er spurning hvort luck of the Irish fylgi nafninu Ryan og þeir Ari og O’Shaugnessy fljúgi saman í úrslitin í Lissabon.

Örvæntingarfull á botninum

Á botni listans í ár eru vinir okkar frá örríkinu San Marínó sem hafa átta sinnum tekið þátt í undankeppnum Eurovision en aðeins einu sinni komist áfram. Ó, þvílík gleði það var þegar hin örvæntingarfulla vinkona okkar Valentina Monetta komst loksins áfram í þriðju tilraun sinni. Það er spurning hvort San Marínó, sem reyndar sendir hina maltnesku Jessiku og Berlínarmærina Jenifer, komist áfram í úrslitin í Lissabon í ár.

Framlag Tékka er talið frekar sigurstranglegt, en það vermir þriðja sæti veðbankanna í ár. Samkvæmt tölfræðinni eru heillastjörnurnar þó ekki með þeim í liði þar sem þeim hefur einungis einu sinni tekist að komast í lokakeppnina í sex tilraunum. Það er því spurning hvort Mikolas Josef nái að snúa lukkunni þeim í vil og bæta rós í hnappagat þeirra Tékka eins og Gabrielu Gunčíková tókst árið 2014.

Pólverjar eru sú þjóð sem þurfti flestar tilraunir til að komast áfram í lokakeppnina úr forkeppni. Það tókst ekki fyrr en í áttundu tilraun árið 2014 þegar Donatan & Cleo sungu sig inn í hug, hjörtu og [ritskoðað] Evrópubúa með eftirminnilegum hætti.

Listinn er þó ekki óbrigðull

Það eru tvö lönd sem bjóða tölfræðilíkunum byrginn. Búlgaríu er spáð þriðja efsta sæti í veðbönkum upp úr fyrri undankeppninni en þeir eru í fjórða neðsta sæti yfir heildarárangur frá árinu 2004 af þeim sem keppa í ár. Svipað má segja um Tékka en þeir eru í öðru sæti í veðbönkum en í öðru neðsta sæti undankeppnanna í sögulegu samhengi.

Það sem kannski er hvað mest sjokkerandi er að Rúmenía hefur alltaf komist áfram í úrslit þegar þau hafa keppt, eða alls 10 sinnum, en framlag þeirra í ár vermir aðeins tólfta sæti veðbankanna fyrir seinni undankeppnina og því ekki á leið í lokakeppnina ef eitthvað má marka spá þeirra.   

Úrslit undankeppninnar segir ekki allt

Nokkrir sigurvegarar Eurovision hafa ekki sigrað undankeppnina sem þeir komust í úrslit úr. Árið 2008 lenti Dima Bilan í þriðja sæti í undankeppninni, Ruslana lenti í öðru sæti árið 2004, Ell & Nikki lentu í öðru sæti árið 2011 og Jamala var í öðru sæti árið 2016 í seinni undankeppninni.

Listinn í heild sinni

Ástralía 100.00% 2/2
Aserbaísjan 100.00% 9/9
Lúxemborg 100.00% 1/1
Rúmenía 100.00% 10/10
Rússland 100.00% 9/9
Serbía og Svartfjallaland 100.00% 1/1
Úkraína 100.00% 10/10
Grikkland 90.91% 10/11
Armenía 90.00% 9/10
Svíþjóð 88.89% 8/9
Bosnía og Hersegóvína 87.50% 7/8
Tyrkland 85.71% 6/7
Ungverjaland 81.82% 9/11
Georgía 70.00% 7/10
Danmörk 66.67% 8/12
Moldóva 66.67% 8/12
Serbía 66.67% 6/9
Noregur 63.64% 7/11
Króatía 54.55% 6/11
Ísland 53.85% 7/13
Ísrael 53.85% 7/13
Litháen 53.85% 7/13
Austurríki 50.00% 4/8
Kýpur 50.00% 6/12
Malta 50.00% 6/12
Albanía 46.15% 6/13
Finnland 46.15% 6/13
Írland 41.67% 5/12
Belgía 38.46% 5/13
Lettland 38.46% 5/13
Pólland 36.36% 4/11
Hvíta-Rússland 35.71% 5/14
Eistland 35.71% 5/14
Holland 35.71% 5/14
Svartfjallaland 33.33% 3/9
Portúgal 33.33% 4/12
F.J.L. Makedónía 30.77% 4/13
Slóvenía 28.57% 4/14
Búlgaría 27.27% 3/11
Sviss 23.08% 3/13
Tékkland 16.67% 1/6
San Marínó 12.50% 1/8
Andorra 0.00% 0/6
Mónakó 0.00% 0/3
Slóvakía 0.00% 0/4

*Skáletraðar þjóðir taka ekki þátt 2018, fyrri talan er hversu oft þjóð hefur komist áfram úr undankeppni og seinni talan er hversu oft þjóð hefur tekið þátt í undankeppni.