Yfirferðin heldur áfram.


Við höldum áfram að fara yfir framlögin í Eurovision 2018. 43 stykki, takk fyrir vesskú. Nú ætlum við að kíkja á Grikkland, Serbíu, Ísrael og Austurríki, en þrjú af þessum fjórum lögum voru valin innbyrðis. Tökum þetta í stafrófsröð af því bara.

Austurríki – Nobody but you – Cesár Sampson.

Hann Cesár er svo sannarlega það sem við (og Danir) köllum “alt muligt mand”. Hann er söngvari, lagahöfundur og fyrirsæta og einnig menntaður félagsráðgjafi. Cesár fæddist árið 1983 í Linz í Austurríki og hefur allt frá unga aldri daðrað við allt tónlistartengt. Hann var valin innbyrðis af austurríska sjónvarpinu í desember, til að vera fulltrúi landsins í Lissabon, og kom það val sennilega til vegna þess að þrátt fyrir að margir hafi ekki vitað nákvæmlega hver Cesár var fyrir þann tíma, þá er hann sko þaulreyndur Eurovision kappi! Cesár var í bakröddum fyrir alheimsyndið hana Poli Genova í Stokkhólmi og svo aftur árið eftir fyrir emókrúttið Kristian Kostov í Kænugarði. Svo hann veit alveg nákvæmlega hvað bíður hans í Lissabon. Nema núna fær hann að vera aðal. Vei! “Nobody but you” er hið fínasta popplag með mikilli sál, og mörgum datt í hug Sam Smith þegar það heyrðist fyrst. En þar endar líka samlíkingin, því Cesár á þetta frá A-Ö og er gríðarlega traustur flytjandi. Það er alltaf smá áhætta fólgin í því þegar bakraddasöngvarar bregða sér í aðalhlutverk (hóst, hóst, IMRI, hóst) en við höfum engar áhyggjur af Cesár. Hann er alveg með þetta! Austurríki komst í aðalkeppnina í fyrra og allar líkur eru á að Cesár endurtaki leikinn í ár.

Grikkland – Oneiro Mou – Yianna Terzi

Grikkir hafa verið þónokkuð happasælir í gegnum árin. Þeir hafa unnið keppnina einu sinni og verið oft inn á topp tíu eftir að forkeppnirnar komu til sögunnar. Grísku framlögin hafa nánast alltaf haldið í sína þjóðlegu tónlistararfleifð, þó að þau hafi verið með poppuðu ívafi. “Oneiro Mou” er þar engin undantekning, því lagið er sungið á grísku og hefur þennan seiðandi tón sem Jakob Frímann kallaði “ekkólandahljóminn”. Yianna Terzi er 38 ára gömul tónlistarkona, sem hefur verið í bransanum síðan um aldamótin 2000. Hennar sérgrein er einmitt þessi þjóðlagatónlist sem Grikkir kalla “laiko”. Það er ekki beint hægt að segja að leið Yiönnu til Lissabon hafið verið þyrnum stráð. Haustið 2017 fór gríska sjónvarpið mikinn í leit sinni að hinu “fullkomna framlagi” Grikklands. Lagið átti sko að vera GRÍSKT. Yianna var í upphafi einungis ein af tuttugu mögulegum fulltrúum ýmissa plötuútgáfna í Grikklandi, en þegar á leið, heltust lögin eitt af öðru úr lestinni. Ýmist vegna þess að þau þóttu ekki nógu þjóðleg eða af því að það var bara óvart búið að gefa þau út löngu fyrir tilsettan tíma. Á endanum voru það Yianna og tveir aðrir sem eftir voru um hitunina, en þegar plötufyrirtækin sem áttu hin tvö lögin neituðu að borga 20.000 evrur til að fá að vera með í “forkeppninni”, varð Yianna sjálfkrafa kjörin fulltrúi Grikklands í Lissabon. Svo að tæknilega séð var hún innbyrðis val. Fer ekki ofan af því!

Ísrael – Toy – Netta Barzilai

Úhúhú, þetta er svo klikkað dæmi! Dásamlegt! Netta Barzilai er 25 ára gömul hörku söngkona, og klárlega eftirminnilegasti keppandinn í ár. Hún sigraði hæfileikakeppnina “The Next Star for Eurovision 2018”, sem eins og nafnið gefur til kynna, er leit Ísraelsmanna að fulltrúa sínum fyrir keppnina og strax var farið á fullt að finna lag sem hentaði Nettu og framúrstefnulegum stíl hennar. Lagahöfundarnir Doron Medalie og Stav Berger voru fengnir til verksins, en þeir sem til þekkja, vita að Doron var maðurinn á bakvið hið epíska “Golden Boy”. Lagið “Toy” er pínu geðveikt, en algjörlega á góðan hátt. Netta lætur svo sannarlega ljós sitt skína í gegnum svokallað voice-loop, sem hún fær reyndar að taka með til Lissabon en hún gaggar og gerir allskyns hljóð sem heyrast venjulega ekki í Eurovision framlögum. Netta er líka það sem kallað er “stór stelpa” og hún lætur þá sem gagnrýna hana, aldeilis heyra það! “Í mörg ár fannst mér ég ekki vera nógu góð fyrir neitt. En vitiði, ég er það! Og hana nú!” eru skilaboðin sem Netta sendir og amen fyrir því, systir! “Toy” er baráttusöngur allra þeirra kvenna sem hafa lent í leiðindapésum sem líta á þær sem leikföng. Þeim er einfaldlega sagt að troða því og hinn kvenlegi kraftur upphafinn í staðinn. Áfram Netta segjum við nú bara, og greinilega allir veðbankar líka, því Netta er sem stendur efst í þeim flestum og talin langlíklegust til að sigra keppnina, eins og staðan er núna. Langar ekki öllum til Tel Aviv á næsta ári? Og smá samsæriskenning.1978, 1998 og…..2018?

Serbía – Nova Deca – Sanja Ilic & Balkanika

Þeir sem þjást af BalkanBallöðuBlætinu fá smá fyrir sinn snúð í serbneska framlaginu í ár. Þar er yfir og allt umlykjandi, þessi dásamlegi og sérstaki Balkanhljómur sem við elskum flest og dáum. En með smá tvisti, því það er líka þvottekta popp þarna á ferðinni. Sanja Ilic er lagahöfundur sem hefur verið í bransanum í meira en hálfa öld og stofnaði tónlistargrúppuna Balkanika um aldamótin 2000. Hann hefur alltaf verið óhræddur við að prófa sig áfram með allskyns tónlistarsamsuður og “Nova Deca” er ein slík, þar sem blandað er saman serbneskri þjóðlagahefð og eins og áður sagði, hreinræktuðu danspoppi. Serbar hafa unnið einu sinni, en Marija Serifovic rúllaði keppninni upp sælla minninga árið 2007, með gullfallegu ballöðunni “Molitva”. Það var líka í fyrsta skipti sem Serbar tóku þátt sem sjálfstætt ríki, en fyrstu tvö árin kepptu þeir með Svartfjallalandi, sem sameinuð þjóð. Í fyrra gekk Serbíu ekkert yfirmáta ofurvel, en Tiana Bogicevic rétt missti af úrslitunum því hún endaði í 11. sæti í undankeppninni. Hvort Serbum gengur betur í ár, verður erfitt að segja, en við ætlum að vera bjartsýn og segja já. Ef ekki fyrir lagið þá fyrir þennan dásamlega flautuleikara sem er sennilega um sjötugt en rokkar leðurbuxurnar og Iain Anderson/Albert Einstein lúkkið eins og engin sé morgundagurinn. Og það er bara ekki Eurovision án þess að eitt stykki BalkanEitthvað sé með!

Þjóðleg blanda með sálarívafi og hænugaggi var það í dag. Óhætt að segja að hér ráði fjölbreytileikinn ríkjum. Næsti pistill mun fara yfir framlög Hvíta-Rússlands, Svartfjallalands, Búlgaríu og Ítalíu.