Hjónadúett sigrar í frönsku undankeppninni

Fulltrúar Frakka í Eurovisionkeppninni í Lissabon í ár verða hjónin Émilie Satt og Jean-Karl en þau skipa dúettinn Madame Monsieur og flytja lagið Mercy. Lagið felur í sér gagnrýni á þjóðir Evrópu vegna flóttamannavandans. Heiti lagsins er nafn lítillar stúlku sem fæddist um borð í flóttamannabát síðastliðið vor en móðir hennar hafði flúið átökin í heimalandi sínu Líbíu.

Það var mikið um dýrðir í frönsku undankeppninni í ár. Frakkar settu markið hátt fyrir þá sem á eftir koma og spurning hvort nokkur eigi eftir að toppa þá í ár. Fyrirkomulagið á lokakvöldinu var svipað og í undanriðlunum, allir keppendur byrjuðu á að syngja ábreiðu og síðan sitt eigið lag og voru alls átta lög í keppninni í ár. Hins vegar sungu þeir núna ábreiður með öðrum þekktum frönskum tónlistarmönnum, eftirminnilegastur var klárlega dúett Emmy og Slimane með lag hans Viens on s’amie. En ekki síður þegar Nassi söng syrpu laga með hinum einu sönnu Gipsy Kings.

 

En að lokum var það popp-parið Madame Monsieur með lagið Mercy sem fór með sigur að hólmi eftir æsispennandi kosningu þar sem ekki varð ljóst fyrr en undir blálokin hver myndi vinna. Eftir flutning allra keppenda gáfu alþjóðlegir dómarar sín stig en stig þeirra giltu 50% á móti símakosningu. Það var okkar eigin Felix Bergsson sem reið á vaðið en þess má geta að við eigum íslenska dómara í nokkrum keppnum víðs vegar um Evrópu, t.d. líka í Svíþjóð og Þýskalandi. Felix var hrifnastur af lagi Madame Monsieur, gaf þeim 12 stig. Aðrir dómarar utan hins búlgarska Yvans voru hins vegar ekki jafnhrifnir og að lokinni dómarakosningu voru þau í þriðja sæti með 68 stig. Í fyrsta sæti með 90 stig var Lisandro með lagið Eva og í öðru sæti með 82 stig var Emmy með lagið Ok ou KO. Það fór um aðdáendur popp-parsins því á þessum tímapunkti leit allt út fyrir að Lisandro myndi vinna.

En Frakkar eiga það til að koma manni á óvart og svo fór að Lisandro lenti í þriðja sæti í símakosningunni, Malo með lagið Ciao var í öðru sæti, nokkuð óvænt miðað við dómarakosningu og Madame Monsieur vann símakosninguna nokkuð örugglega en þau fengu 28% greiddra atkvæða. Þetta þýddi það að Madame og Monsieur náðu að tryggja sér sigur með 186 stig. Öðru sætinu náði Lisandro með 162 stig og í þriðja sæti varð Malo með 117 stig, 5 stigum meira en Emmy.

Í þriðja sæti: Malo með lagið Ciao

Í öðru sæti: Lisandro Cuxi með lagið Eva

Í fyrsta sæti og fulltrúi Frakka í Portúgal í ár: Madame Monsieur með lagið Mercy

Framlag Frakka í ár verður því lagið Mercy sem flutt verður á sviðinu í Lissabon 12. maí. Lagið ber með sér fallegan boðskap en einnig gagnrýni á þjóðir Evrópu vegna flóttamannavandans og skeytingarleysi þeirra gagnvart örvæntingu þeirra þúsunda sem reyna að komast yfir Miðjarðarhafið í leit að skjóli frá stríðsátökum. Heiti lagsins er nafn lítillar stúlku, Mercy sem fæddist um borð í flóttamannabáti síðastliðið vor en móðir hennar hafði flúið átök í heimalandi sínu Líbíu.

Madame Monsieur er dúett hjónakorna að nafni Émilie Satt og Jean-Karl Lucas. Þau hafa hingað til verið meira þekkt fyrir að semja lög fyrir aðra listamenn og átt nokkra smelli í Frakklandi. Meðal hittara sem þau hafa átt er lagið Smile með rapparanum Youssoupha sem var eitt vinsælasta franska lagið 2015 og lagið Dancer með keppinaut þeirra úr undankeppninni, Lisandro, naut einnig velgengni. Það verður því áhugavert að sjá hvort þau muni njóta sömu velgengni með lög sín í eigin flutningi.