„Dómaraskandalar“ ársins 2017

Á hverju ári koma upp tilfelli sem gætu talist til dómaraskandala og fólk fær ekki nóg af því að skoða þess háttar hluti. Það er því ekki úr vegi að fara yfir nokkra „skandala“ sem komu upp hvað stigagjöfian í ár varðar.

 

Kákasus-óvinir

Azerbaijan og Armenía eru svarnir óvinir og kemur það augljóslega fram þegar kemur að stigagjöf landanna í Eurovision. Í ár settu dómnefndir beggja land hvort annað í síðasta sætið, bæði í undanúrslitunum og í úrslitunum. Dómnefndir beggja landa hafa stundað þetta í nokkur ár og virðist engin kippa sér upp við þetta hjá EBU, þrátt fyrir að tilkoma dómnefnda hér um árið hafi einmitt átt að sporna gegn þess háttar nágrannaatkvæðum sem hafði einkennt símakosninguna áður en 50/50 dómnefnda- og símakosningakerfið var sett upp.

Einn aðili armensku dómnefndarinnar í fyrra setti víst Azerbaijan ekki í síðasta sætið í úrslitunum og orðið á götunni eftir keppnina var á þá vegu að sá aðili hefði verið tekinn á teppið eftir á af armenska sjónvarpinu. Reyndar hefur Armenía gefið Azerbaijan stig tvisvar sinnum, 1 stig árið 2009 og 2 stig árið 2008, og hefur verið orðrómur uppi um að einhvers konar rannsókn hafi verið sett upp á vegum armenska sjónvarpsins til að finna út hver í ósköpunum hafi dottið í hug að kjósa óvinina frá Azerbaijan, en við seljum það þó ekki dýrara en við keyptum það.

En til að undirstrika hversu langt óvinskapur landanna nær þá ákvað Armenía að halda sig heima þegar keppnin var haldin í Azerbaijan árið 2012.

 

Bestu vinir Miðjarðarhafsins

Hinum megin á öfgaendanum eru svo þekktustu BFF (best friends forever) Eurovision-sögunnar; Grikkland og Kýpur. Það vakti „sérstaka“ athygli í ár að dómnefnir Grikklands og Kýpur gáfu hvort öðru 12 stig. Þegar rýnt er nánar í stig dómnefndanna má sjá að tveir kýpversku dómaranna settu Grikkland í fyrsta sæti, tveir í annað sæti og svo einn í sjötta sætið. Við nánari skoðun á stigum grísku dómaranna má sjá að tveir þeirra settu Kýpur í fyrsta sætið, einn í annað sæti, einn í sjötta sæti og einn í áttunda sæti. Miðjarðarhafs-teymið er þó ekki alveg jafn áberandi í ást sinni á hvort öðru eins og Kákasus-óvinirnir eru í hatri sínu á hvort öðru, en það þótti (og hefur þótt í gegnum í tíðina) frekar áhugavert að dómefndir landanna skyldu vera svona gjafmildar við hvor aðra. Það kom þó nákvæmlega ekkert á óvart að löndin tvö skyldu hafa gefið hvort öðru 12 stig í símakosningunni.

 

 

Keppinauta-kattarnefið

Athygli vakti að dómnefndir nokkurra keppninautanna sem hafði verið spáð sigri gáfu hvorir öðrum engin stig. Portúgal, Búlgaría og Ítalía voru efst í veðbönkunum og hafa dómnefndir Portúgal og Búlgaríu greinilegast ætlað sér að koma í veg fyrir að keppinautarnir hlytu of góðan meðbyr.

Búlgarska dómnefndin setur Ítalíu í 13.sæti og Portúgal 23.sæti og portúgalska dómnefndin setur Ítalíu í 18.sætið og Búlgaríu í 14.sætið. Dómnefndir Búlgaríu og Portúgal gáfu því hvort öðru engin stig en þar sem yfirburðir Portúgal voru það miklir kom þetta stigaleysi keppinautanna ekki sök. Eru þau þó engu að síður athyglisverð.

Þriðji keppinauturinn, Ítalía, var þó aðeins minna hræddur við samkeppnina þar sem ítalska dómnefndin setti Portúgal í 6.sætið og Búlgaríu í 9.sætið.

Áhorfendur viðkomandi landa voru þó aðeins gjafmildari en ítalskir áhorfendur settu Búlgaríu í 3.sætið og Portúgal í  6.sætið, portúgalskir áhorfendur settu Búlgaríu í 3.sætið og Ítalíu í 7.sætið og að lokum settu búlgarskir áhorfendur Portúgal í 4.sætið en Ítalir fengu þó engin stig frá þeim og enduðu í 13.sætið.