Fjórði dagur æfinga í Kænugarði

Sólin skín í Kænugarði og Eurovisionþorpið í miðbænum virðist vera tilbúið. Allt er að smella saman hér í Úkraínu og allir í fyrirtaksskapi. Í dag æfa San Marínó, Króatía, Noregur, Sviss, Hvíta-Rússland, Búlgaría, Litháen, Eistland og Ísrael. Spurningin sem er á allra vörum er að sjálfsögðu hvort einhvert framlag í dag geti mögulega skákað velgegni Francesco Gabbani og Occidentali’s Karma því æfingar síðustu þriggja daga benda til að svo verði ekki.

San Marínó

Valentina Monetta og Jimmie Wilson syngja Spirit of the Night fyrir San Marínó. Jimmie mætir á sviðið í níðþröngum svörtum glimmergalla með bringuna bera eins búist var við. Valentína er einnig klædd svörtu og virðist vera í vandræðum með að ákveða hvernig hún eigi að lita hár sitt. Það er mjög gott samband milli Valentinu og Jimmie á sviðinu og þau enda atriðið í faðmlögum. Sviðið er baðað litríkum ljósum og San Marínó er svolítið að vinna með diskó- og klúbbaþema. Þrjár bakraddir fylgja Valentínu og Jimmie á sviðinu. Mikið klappað var með laginu og eftir það í blaðamannahöllinni en það gæti mögulega verið af hreinræktaðri kaldhæðni.

Króatía

Jacques Houdek syngur lagið My Friend fyrir Króatíu í ár. Jacques mætir í svörtu á sviðið ásamt  fiðluleikara, sellóleikara (sem missir bogann sinn í gólfið á einum tímapunkti) og þremur bakröddum. Jacques syngur til skiptist báðar raddirnar og myndavélin skiptir á milli eftir því sem við á. Þegar hann lítur til hægri syngur hann stráksröddina en þegar hann lítur til vinstri syngur hann óperuröddina. Í bakgrunni eru myndir af Jacques, fjallasýn, gul sólblóm og regnbogi (pínu klisjukennt). Það verður ekki tekið af Jasques að hann syngur mjög vel. Síðasta rennsli lagsins My Friend er tekið með pýrótækni og við fáum meira að segja gyllta sturtu í lokin! Mikið var klappað í blaðamannahöllinni eftir þetta og eru flestir vissir um að þessu lagi eigi eftir að ganga vel í keppninni.

Noregur

JOWST flytja lagið Grab The Moment fyrir Norðmenn í ár. JOWST er Joakim With Steen, tónlistarframleiðandi og höfundur lagsins, og fyrir þetta Eurovision verkefni tekur hann með sér söngvarann Aleksander Walmann. Sviðsetningu svipar til þeirri í Melodi Grand Prix, JOWST er með ljósagrímuna sína og Aleksander með hattinn sinn fremst á sviðinu og fyrir aftan eru tveir trommarar og tveir bakraddarsöngvarar. Norðmönnum hefur augljóslega verið leyft að nýta voice sampling í laginu og Aleksander þykist ekki einu syngja þann hluta lagsins. Reglur EBU mæla fyrir um að allar raddir skulu fluttar á sviði og enginn söngur er leyfður á playbacki. Við veltum fyrir okkur hvort öðrum keppendum hafi verið að boðið að nýta sér voice sampling og þar með gætt jafnræði? Kannski höfum við orðið vitni að stefnubreytingu Eurovision að þessu leyti. JOWST ku vera með plan B ef einhver sendinefndanna kvartar yfir voice samplinu í laginu þeirra en við vitum ekki til þess á þessu stigi að einhver hafi kvartað. Burt séð frá þessu var æfing JOWST hér í dag vel heppnuð og sviðsetning atriðisins fyrir stóra sviðið í Kænugarði mjög góð.

Sviss

Tríóið Timebelle syngur lagið Apollo fyrir Sviss í ár. Söngkonan Miruna birtist okkur á háum gulum palli í gulum síðkjól og minnir eilítið á kanarífugl. Sviðið er lýst bleikum og gulum ljósum og kannski vinnur þessi litríki bakgrunnur með þeim. Trommarinn Samuel situr við settið sig í bakgrunni og Emanuel leikur á hvítt píanó. Því miður fengum við hér í blaðamannahöllinni fara að heyra eitt rennsli af Apollo – eitthvað virðist tæknin ekki vera vinna með mönnum í dag.

Hvíta-Rússland

Naviband syngur Story of My Life fyrir Hvíta-Rússland í ár og í fyrsta sinn heyrum við hvít-rússnesku í Eurovision. Ksenia og Artem eru tvö á sviðinu og standa á litlum bát með tveimur stórum viftum til hvorra hliða. Ksenia er klædd í hvítan kjól sem hefur þjóðernislega skírskotun og hann er einnig í hvítu en brúnu vesti. Lýsingin er blá og hvít og við fáum að sjá fljótandi byggingar og gríðarstóran hnött í bakgrunninum. Hér er um mjög orkumikla framkomu að ræða og verður hressandi að sjá þau á sviðinu.

Búlgaría

Kristian Kostov syngur Beautiful Mess fyrir Búlgara í ár. Kristan mætir á svið í svörtum fötum og hvítri skyrtu að hætti ungra söngvara eins og Justin Bieber og félaga. Hann skartar hárgreiðslu í stíl við titil lagsins og virkar mjög öruggur á sviði. Lýsingin og bakgrunnur eru hvít, grá og blá og við fáum að sjá grafík beint fyrir framan myndavélina. Bakgrunnurinn er vel heppnaður – eins og teiknaður á sviðið og það rignir á einum tímapunkti atriðisins. Kristan hefur öruggar sviðshreyfingar og stundum lítur út fyrir að hann hristi myndavélina. Söngurinn var furðu góður miðað að hér er um að ræða 17 ára söngvara. Hér gætum við verið komin með framlag sem gæti velt Ítölum undir uggum og voru viðbrögð blaðamanna í salnum mjög góð.

Litháen

Fusedmarc syngur lagið Rain of Revolution fyrir Litháen í ár. Atriðinu svipar til uppsetningar þess í litháísku undankeppninni. Söngkonan er enn í rauðum kjól með hnút í hárinu eins og Mía litla í Múmínálfunum. Bakgrunnurinn er rauður og gylltur og svo virðist sem Litháar ætla að spara sér pýrótæknina í ár og hafa bara sett hana inn í bakgrunninn. Söngkonan (sem ekki einu eurovision.tv veit hvað heitir) var frekar orkulítil á æfingu. Það verður að segjast eins og er að Litháen hefur litla von um að komast upp úr undankeppninni þetta árið.

 

Eistland

Koit Toome og Laura syngja Verona fyrir Eista í ár. Laura er í hvítum síðkjól og Koit er klæddur drapplituðum jakkafötum og leðurjakka til skiptist. Því miður týndu Koit og Laura sviðsjarmanum í Verona eða allavega á leiðinni upp á svið en lagið stendur fyrir sínu. Lýsingin er hvít og myndir af Lauru eru sýndar í bakgrunni. Myndvinnsla atriðisins kemur ákaflega vel út og í lokin snýr parið bökum saman eins og svo hefðbundin er í dúettatriðum. Þetta er ekki alveg nógu góður dagur hjá Koit en Laura keyrir upp sjarmann fyrir þau bæði.

Ísrael

Imri syngur I Feel Alive fyrir Ísraela í ár. Imri mætir í svörtu dressi og að sjálfsögðu ermalausu enda þýðir ekkert að vera fullklæddur fyrir þetta partý! Lýsingin er hvít til að byrja með og Imri gengur í gegnum stjörnur í samræmi við texta lagsins. Að sjálfsögðu er myndum af stjörnunni varpað á bakgrunninn og ljósin breytast úr hvítu í rautt. Imri hefur tvo dansara með sér á sviðinu og þrjá bakraddir og atriðið minnir á Sakis Rouvas sviðsetningu. Imri átti því miður ekki góða æfingu í dag raddlega séð en menn verður nú alltaf að hafa eitthvað ráðrúm til bætingar.

Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í Kænugarði.