Annar dagur æfinga í Kænugarði

Þá er annar dagur æfinga hafin í Kænugarði og FÁSES.is heldur áfram að gefa ykkur stutta innsýn í þessar fyrstu æfingar fyrir fyrri undankeppni Eurovision þann 9. maí. Í dag er komið að Grikklandi, Póllandi, Moldavíu, Íslandi, Tékkland, Kýpur, Armeníu, Slóveníu og Lettlandi að æfa. Að sjálfsögðu erum við spenntust fyrir æfingu Íslands í dag en einnig verður gaman að sjá hvernig Sunstroke Project frá Moldavíu og Artsvik frá Armeníu gengur.

Grikkland

Demy syngur This is Love fyrir Grikki í ár. Demy mætir á svið í klassískum ljósum samkvæmisdansakjól og skartar eldrauðum varalit. Þemað í atriðinu er vatn og vatnsdropar og það mætti kannski segja að það rigni ást í bláu og gylltu hjá Demy. Því miður var ekki samræmi milli aðalraddar og bakradda í dag en það er eflaust tæknilegt vandamál sem verður lagað. Demy gengur yfir sviðið á tvöfaldan pall og stendur hún á þeim efri sem rís upp en á neðri pallinum er lítil buslaug þar sem tveir dansarar, að sjálfsögðu í líki grískra goða, baða sig berir að ofan. Í miðju atriði birtist ákaflega vel heppnuð heilmynd af tveimur dömum í faðmlögum. Hún svíkur sko ekki gríska sviðsetningin!

Pólland

Kasia Mos syngur Flashlight fyrir Pólland í ár. Sviðsetningin er einföld og Kasia mætir á sviðið í hvítum hefðbundnum síðkjól með einni ermi og djarfri klauf (svona til að hafa smá kynþokka í þessu). Pólverjar leita á gamalkunnar Eurovision slóðir og planta fiðluleikara á sviðið með Kasia og spara ekki vindvélina. Hún er greinilega í engum vandræðum með sönginn en mun þurfa að vinna í ná betra sambandi við áhorfendur – nærmyndir einar og sér tryggja ekki þetta samband, það verður líka að vera smá blik í auga flytjandans. Lýsingin er látlaus en falleg og í lok lagsins stendur skrifað Freedom í bakgrunni.

Moldavía

Sunstroke Project heiðrar okkur í annað skipti með nærveru sinni í Eurovision (fyrra skiptið var í Osló 2010 og þá með söngkonunni Olia Tira) og ætlar að flytja lagið Hey Mamma fyrir Moldavíu. Eitthvað virkuðu Sunstroke Project orkulausir á æfingu í dag en ef eitthvað er að marka myndskotin þá ætla þeir að reiða sig á hressa áhorfendur í salnum svo þá hlýtur orkan að keyrast upp. Hljómsveitin reiðir sig á sömu sviðsetningu og í moldavísku undankeppninni; þrír hljómarsveitargæjar, einn á fiðlu, einn söngvari og eitt stykki Epic Sax Guy. Þrjár bakraddir eru með þeim á sviðinu sem voru að prófa sig áfram með sviðsklæðnaðinn í dag – í eitt skipti voru þær í svörtum blöðrupislum og hin skiptin voru pilsin komin niður og þá var búningurinn orðin að hvítum brúðarkjól með barðastóra hatta (að sjálfsögðu með klauf til að dansinn fái nú að njóta sín). Náladofadansinn er á sínum stað og skemmtilegu sviðshreyfingarnar, höfuðhnykkirnir og fótaklórið svokallaða. Í lok æfingar var klappað fyrir skemmtilegu framlagi Moldavíu í ár og það veit alltaf á gott. Það verður partý þegar Moldavía stígur á svið!

 

Ísland

Þá er komið að stelpunni okkar að stíga á úkraínska sviðið! Því miður varð farangur íslensku sendinefndarinnar eftir í Brussel í gær eins og flestir hafa frétt svo það gæti verið að ástæðan fyrir því að Svala stígur á svið í hálfum búningi; efri hlutinn er hluti af hvíta samfestingnum með hvítu skikkjunni eða vængjum sem er hluti af búningnum en síðan er hún blómaleggings við. Búningurinn grípur strax augað og minnir á Star trek eins og Svala hefur sjálf sagt. Svalar neglir fyrsta rennslið og virðist kunna vel við sig á sviðinu. Lýsingin er hvít og blá og unnið er með sama laserþema og í Söngvakeppninni en nú bara á stærri skala. Í þriðja rennsli virðist myndvinnslan vera komin á gott skrið og nærmyndunum af okkar konu hefur fjölgað sem kemur ákaflega vel út. Í heildina mjög vel heppnuð æfing hjá Svölu og gefur góða fyrirheit fyrir fyrri undankeppnina þann 9. maí!

Tékkland

Martina Bárta syngur lagið My Turn fyrir Tékkland í ár. Lagið er hugguleg melódía og því kemur eilítið á óvart að Martina stígur á svið í einhvers konar gylltum samfesting sem er þar að auki mjög fleginn (kynþokkinn keyrður upp!). Lýsingin er gul og fjólublá sem er ágæt tilbreyting frá öðrum lögum í keppninni hingað til og verður eflaust til að þess að My Turn stendur aðeins út úr. Hálf mínúta líður áður en Martina lítur í myndavélina sem hlýtur að verða lagað því auðvitað vilja menn ekki missa tengsl við áhorfendurnar.

Kýpur

Hovig syngur Gravity fyrir Kýpverja í ár. Atriðið minnir sterklega á rússneska lagið með Sergey Lazarev í fyrra og belgíska framlagið, Loic Nottet, 2015 með hvítum bakgrunni og grafíkkössum. Hovig byrjar einn á sviðinu klæddur svörtu en síðar í atriðinu nýtur hann stuðnings tveggja dansara. Í lok lagsins liggur Hovig á gólfinu og einhverjum blaðamönnum þótti hann sína á sér æðri endann! Hovig átti í einhverjum vandræðum með að halda jafnvægi í dansinum en það mun örugglega lagast eftir því sem æfingum vindur fram. Hovig er af armenskum ættum svo eflaust fær hann einhver stig þaðan.

Armenía

Artsvik syngur Fly With Me fyrir Armeníu í ár og þessi sviðsetning grípur svo sannarlega augað. Artsvik mætir á sviðið í gervileðursdragt með risastóran hnút í hárinu. Tveir dansarar fylgja henni og er etnískt yfirbragð lagsins undirstrikað með leyndardómsfullum handadans. Lýsingin er fjólublá og rauð og síðan er reyk bætt við sem eykur á mystíkina. Armeníar dregur fram góðan bakgrunninn, sem minnir reyndar pínu á Eurovision lógóið sjálft, með pýrótækni (við elskum það!). Síðan endar þetta allt saman í kraftmiklum endi með flugeldum.

Slóvenía

Omar Naber syngur lagið On My Way fyrir Slóvena í ár og trillar inn á sviðið í glitrandi svörtum jakkafötum. Hér hefur tekist ákaflega vel til í sviðsetningu; mikið af nærmyndum af Omar þar sem hann veit upp á hár hvenær hann á að líta í myndavélina, hvít ljós á sviðinu og um salinn og er fyrsti keppandi til að nota gríðarlega flottu ljósakrónuna sem var sérstaklega hönnuð fyrir Eurovision í ár. Omar heldur áhorfendum límdum við skjáinn allan tímann og atriðið hans endar með kraftmiklum hætti við þó nokkra aðdáun blaðamanna hér í Kænugarði.

Lettland

Hljómsveitin Triana Park syngur Line fyrir Letta í ár. Agnese Rakovska, söngkona sveitarinnar, mætir á sviðið með bleikar krullur í hárinu, í gylltum stígvélum og syngur við bleikan hljóðnemastand. Sviðsetningunni svipar til sviðsetningar atriðisins í lettnesku undankeppninni og Agnese nýtur stuðning Arturs Strautins, gítarleikara sveitarinnar, Edgars Vilums, sem spilar á einhvers konar trommur úr gleri, and Kristaps Erglis, bassaleikara. Lýsingin er lítrík en þó aðallega græn og atriðið er litríkt og frískandi en kannski á mörkum þess að vera svolítið sækadelik. Á sviðinu eru í bakgrunni stórir glerveggir sem skrifað hefur verið á með neonlitum. Athygli vakti að lettneska laginu var bara rennt tvisvar í gegn með miklum töfum en flestir hér hafa náð 3-4 rennslum á þessum hálftíma sem æfingatími landanna er. Í heildina kemur atriðið á óvart hér í blaðamannahöllinni og ljóst að fyrri undankeppnin endar með krafti.

Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í Kænugarðir.