Þrettánda lag á svið – happa eða óhappa?

Frá því árið 2008, þegar undankeppnirnar urðu tvær, hefur 13. laginu á svið gengið tiltölulega vel. Í 12 af 18 skiptum hefur það verið í einu af 10 efstu sætunum (67% laganna) en þó hafa aðeins 11 af þessum 12 lögum komist upp úr undankeppninni (61% laganna). Árið 2009 giltu þær reglur að efstu 9 lögin úr símakosningu komust áfram og 10. lagið var það lag sem var efst hjá dómnefndum og var ekki á meðal þeirra 9 sem komin voru áfram (þ.e. ef dómnefndir og símakosning voru ekki sammála um efstu 10). Þessi staða kom upp í báðum undankeppnunum og í fyrri undankeppninni misstu Makedónar, sem voru 13. á svið, því sæti í úrslitunum til Waldo’s People frá Finnlandi. Þess má geta að Jóhanna Guðrún var nr. 12 á svið og lenti í 1. sæti í fyrri undankeppninni.

Waldo's People frá Finnlandi fengu sæti í úrslitum árið 2009 á kostnað Makedóníu.

Waldo’s People frá Finnlandi fengu sæti í úrslitum árið 2009 á kostnað Makedóníu.

Árið 2014 var Suzy frá Portúgal 13. í röðinni í fyrri undankeppninni. Suzy (sem er afar vinsæl meðal aðdáenda keppninnar og mætir á hverja einustu keppni) var grátlega nálægt því að komast í úrslit en hún lenti í 11. sæti, aðeins einu stigi á eftir eilífðarkeppandanum Valentinu Monetta frá San Marino. Við þurfum ekki að óttast þau örlög í ár þar sem Valentina keppir ekki í sömu undankeppni og Svala.

Aðeins munaði 1 stigi á Valentinu Monetta og Suzy árið 2014 en Suzy var nr. 13 á svið.

Aðeins munaði 1 stigi á Valentinu Monetta og Suzy árið 2014 en Suzy var nr. 13 á svið.

Ári síðar fylgdi 13. lagi á svið í seinni undankeppninni gríðarleg gæfa en þar var á ferðinni hjartaknúsarinn eini og sanni Måns Zelmerlöw. Það er skemmst frá því að segja að hann lenti í 1. sæti í undankeppninni rétt eins og í úrslitunum.

Talan 13 var heillatala hjá Måns árið 2015.

Talan 13 var heillatala hjá Måns árið 2015.

Í fyrra var svo brotið blað í sögu 13. lagsins í undankeppnunum. Í fyrsta skipti komst það úr hvorugri undankeppninni í úrslit og það sem meira er, bæði lögin sátu á botninum! Jüry frá Eistlandi lenti í 18. og neðsta sæti og danska sveitin Lighthouse X lenti í 17. og næstneðsta sæti, aðeins 6 stigum ofar en hin sí-kiknandi-í-hnjánum Rykka frá Sviss.

Á árunum 2004-2007, þegar aðeins ein undankeppni var haldin, komst 13. lag á svið í úrslit í þrjú af fjórum skiptum. Þessi þrjú lög enduðu einnig öll á meðal efstu 10 í úrslitunum. Albanía lenti í 7. sæti með frumraun sinni árið 2004. Árið 2005 deildi Noregur 9. sætinu með Danmörku, en Danir voru einmitt nr. 13 á svið í úrslitum. Árið 2006 var það sjálfur Dima Bilan frá Rússlandi sem endaði í  2. sæti en sama ár náði Bosnía-Hersegóvína besta árangri sínum í úrslitum Eurovision með lagið Lejla, 3. sæti, en Bosnía var einmitt nr. 13 á svið!

Svala er ekki fyrsti íslenski keppandinn sem fær rásnúmerið þrettán. Árið 1999 var Selma þrettánda á svið og gekk svo glimrandi vel að um tíma var útlit fyrir að keppnin væri á leið til Íslands. Fyrir hjátrúarfulla og/eða talnaáhugafólk má einnig benda á að talan 13 er prímtala og ártalið 1999 er einmitt prímtala líka. Og viti menn, 2017 er líka prímtala!

Svala er númer 13 á svið, rétt eins og Selma árið 1999

Svala er númer 13 á svið, rétt eins og Selma árið 1999