Sérfræðiálit: Saga söngvakeppninnar

Í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision leitaði FÁSES.is til mestu sérfræðinga landsins í Söngvakeppni sjónvarpsins, Eyrúnar Ellýjar Valsdóttur og Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, og bað þær um að stikla á stóru í sögu keppninnar. Þær stöllur hafa verið að hella sér ofan í ýmislegt tengdu Söngvakeppninni í 30 ár á Öllu um júróvisjón síðustu vikur – við mælum með því að allir sannir Eurovision aðdáendur líti þar við!

Eyrún og Hildur stjórnarkonur í FÁSES og ritstjórar Allt um júróvision (jurovision.wordpress.com)

Eyrún og Hildur stjórnarkonur í FÁSES og ritstjórar Allt um júróvisjón (jurovision.wordpress.com)

Ísland og Eurovision í 30 ár

Eins og við öll vitum sem lesum fases.is þá á Ísland 30 ára þátttökuafmæli í Eurovision í ár. Val á framlagi okkar hefur verið með ýmsum hætti. Í flest skiptin hefur RÚV staðið fyrir einhvers konar keppni um lagið. Keppnirnar hafa verið misstórar, allt frá 3 lögum upp í 33 lög. Á þessum tímamótum er ekki úr vegi að skauta örlítið yfir sögu Söngvakeppninnar og vali á framlagi okkar í Eurovision.

Upphafið – ekkert Eurovision

Söngvakeppni Sjónvarpsins hófst reyndar áður en Ísland tók þátt í Eurovision. Árið 1981 var fyrsta keppnin haldin og var hún vegleg í meira lagi. Keppt var á fimm undankvöldum og loks var úrslitakvöld í beinni útsendingu þar sem lagið Af litlum neista eftir sálfræðinemann Guðmund Ingólfsson varð í 1. sæti. Það var Pálmi Gestsson sem söng lagið og gaf það út á plötu sama ár. Keppnin var ekki haldin með sama sniði aftur en nafnið Söng(va)keppni Sjónvarpsins var þó notað árin 1983 og 1985 yfir keppni fyrir klassíska söngvara sem með sigri heima fengu þátttökurétt í evrópskri keppni í Bretlandi.

Gullárin

Frá fyrstu Söngvakeppni sjónvarpsins 1986

Frá fyrstu Söngvakeppni sjónvarpsins 1986

Fyrsta söngvakeppni Sjónvarpsins sem undankeppni Eurovision var haldin árið 1986. Opið var fyrir alla að senda lög í keppnina. Hins vegar voru lögin algjörlega úr höndum höfunda þegar þau voru komin til RÚV. RÚV sá algjörlega um útsetningu laganna auk vals á söngvurum en sú hafði einmitt verið raunin í keppninni 1981. Nöfn höfunda voru ekki gerð heyrum kunnug fyrr en í lok þáttarins þar sem 10 lög kepptu. Eins og víðfrægt er vann lag Magnúsar Eiríkssonar, Gleðibankinn. Lagið var valið af dómnefnd í sjónvarpssal sem samanstóð af fólki úr tónlistarbransanum og gaf dómnefndin aðeins einu lagi stig.

Strax árið eftir voru gerðar allnokkrar breytingar á keppninni. Lag og flytjandi átti nú að fylgjast að og höfundar sem komust áfram í keppnina fengu greidda upphæð frá RÚV sem átti að duga til að koma laginu skikkanlega í keppnina. Innifalið í því var allt frá flutningi til búninga. Þá var einnig tekið upp nýtt kosningafyrirkomulag. Í stað einnar dómnefndar sem gaf einu lagi stig voru settar á fót 8 dómnefndir, ein í hverju kjördæmi. Dómnefndir voru eingöngu skipaðar leikmönnum og samanlagt gáfu hver og ein þeirra lögunum stig á bilinu 1-12 stig í takt við stigagjöf í Eurovision. Fyrirkomulagið gafst vel og hélt velli allt til ársins 1993.

Frá Söngvakeppni sjónvarpsins 1993

Frá Söngvakeppni sjónvarpsins 1993

Þessi ár til 1993 voru hálfgerð gullöld Söngvakeppninnar. Þekktir lagahöfundar ogsöngvarar tóku þátt, áhorfið var mikið og RÚV lagði upp úr því að hafa Söngvakeppnina sem eitt af flaggskipum sínum í vetrardagskránni. Kjördæmadómnefndir voru við lýði þessi ár þótt árið 1990 hafi 9. dómnefndinni svokölluðu verið bætt við. Það var í raun dómnefnd svipuð þeirri sem var í keppninni 1986. Hún var skipuð fólki úr tónlistarbransanum og gaf bara einu lagi stig. Þessi dómnefnd var sett á eftir nokkra ólgu meðal lagahöfunda árið 1989 þega ákveðið var að leita til fimm höfunda til að semja lög fyrir keppnina frekar en að hafa hana opna öllum. Í kjölfar óánægjunnar og stofnun Landslagsins 1989 venti RÚV kvæði sínu í kross og hélt stóra keppni árið 1990. Það var auðvitað Eitt lag enn sem sigraði í þeirri keppni og náði besta árangri Íslands til þessa í keppninni, eða 4. sætinu, eftir slakasta árangur okkar, enn til dagsins í dag, árið áður.

Seglin dregin saman

Árið 1994 var verulega dregið saman í keppninni og eingöngu þrjú lög sem kepptu um að fá að vera framlag Íslands í Eurovision. Lögin þrjú voru flutt í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn og dómnefnd í sjónvarpssal skar úr um hver vann. Það var lag Friðriks Karlssonar, Nætur í flutningi Sigrúnar Evu sem sigraði. Eins og frægt er var það svo Sigga Beinteins sem söng lagið í Eurovision-keppninni. Ástæða söngkonuskiptanna er ekki ljós en Friðrik Karlsson lýsti því í þættinum Árið er á RÚV nýverið að ástæðan hefði verið sú að Sigrún Eva hefði ekki viljað fara í keppnina. Samkvæmt heimildum höfunda er ekki endilega rétt farið með þar.

Eftir litla keppni árið 1994 var ákveðið að blása keppni alveg af árið 1995 og velja hreinlega flytjanda til verksins. Það kom fáum á óvart að Björgvin Halldórsson varð fyrir valinu. Hann fékk að velja sér lag og fékk höfunda til að senda sér lög. Úr varð að hann ákvað að syngja lagið Núna eftir sjálfan sig og félaga sinn Ed Welch. Bæði það að velja einn flytjanda til verksins sem og val Björgvins á laginu var umdeilt og ekki allir lagahöfundar á eitt sáttir. Lagið lifir þó enn ágætu lífi og náði 15. sæti.

Anna Mjöll

Anna Mjöll

Engin keppni var haldin árin 1996-1999. Árið 1996 var þó opið fyrir höfunda að senda inn lög en valnefnd sá um að velja eitt lag til keppni. Lag Önnu Mjallar og Ólafs Gauks, Sjúbídú, varð fyrir valinu. Það má til gamans geta að þetta lag var hvað oftast nefnt af FÁSES-félögum sem lélegasta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins undir liðunum Annað í nýliðnu kjöri félagsmanna um ýmislegt tengt þátttöku Íslands í Eurovision. Enginn aðdáandi gleymir svo því þegar Páll Óskar var valinn sem flytjandi fyrir Íslands hönd né heldur þegar Selma var valin árið 1999 og háði harða baráttu um toppsætið við hina sænsku Charlotte Nilson (nú Pirelli) en varð því miður að lúta í lægra haldi.

Árið 2000 var aftur blásið til keppni. Hún var þó ekki sérlega stór í sniðum. Fimm lög kepptu í gamanþættinum Stutt í spunann í stjórn þeirra Heru Bjarkar Þórhallsdóttur og Hjálmars Hjálmarssonar. Þar kom fram nokkuð óþekktur lagahöfundur sem varð svo að Eurovision-kóngi Íslands. Þetta er auðvitað Örlygur Smári sem átti tvö lög af þeim fimm sem kepptu og kom, sá og sigraði með laginu Tell me. Örlítið var bætt í árið 2001 en þá kepptu átta lög í þættinum Milli himins og jarðar í stjórn Steinunnar Ólínu. Lögin í þeirri keppni þóttu frekar slök en Birtan hans Einars Bárðarsonar sigraði.

Hvíld og síðar risakeppni

Eurovísa - frá Söngvakeppni sjónvarpsins 2003

Eurovísa – frá Söngvakeppni sjónvarpsins 2003

 Eftir pásu frá þátttöku í Eurovision árið 2002 blés RÚV til risakeppni árið 2003. Úrslitakvöldið fór fram í Háskólabíói og var almenningi í fyrsta sinn gefinn kostur á að kaupa sér miða í salinn. Það seldist upp og stemningin í salnum var gríðarleg. Alls kepptu 15 ólík lög og enn ólíkari flytjendur. Botnleðja flutti Eurovísuna sína eftirminnilega, Rúnar Júl söng lag eftir Karl Olgeirsson og þrjár ungar söngkonur stigu á stokk, þær Þórey Heiðdal sem söng lagið Sá þig, Ragnheiður Gröndal sem söng lagið Ferrari og Eivör Pálsdóttir sem flutti lagið Í nótt. Sigur úr bítum bar auðvitað Birgitta Haukdal, poppstjarna Íslands á þessum tíma.

Þrátt fyrir mikinn áhuga og góðan árangur í Eurovision var farið aftur í innanhúsval næstu tvö árin. Jónsi úr hljómsveitinni Í svörtum fötum söng lagið Heaven eftir Svein Rúnar Sigurðsson árið 2004 og Selma flutti lagið If I had your love eftir Þorvald Bjarna ári seinna.


Hin nýja söngvakeppni

Silvía Nótt

Silvía Nótt

Árið 2006 hófst nýr kafli í sögu Söngvakeppninnar. Hún var haldin á ný það ár með pompi og prakt. 15 lög kepptu í myndveri á Fiskislóð en fyrirtækið BaseCamp var fengið til að sjá um keppnina. Það var auðvitað Silvía Nótt sem sigraði með yfirburðum og gerði allt vitlaust í Aþenu um vorið.

Allt frá þeim tíma hefur Söngvakeppni Sjónvarpsins verið haldin árlega. Stærð og snið hefur verið mismunandi en aldrei hafa færri en 10 lög keppt um að verða Eurovision-framlag Íslendinga. Stærsta keppnin var auðvitað Laugardagslögin sem haldin voru 2007-2008 en í heildina spannaði keppnin 19 þætti sem sýndir voru á fimm mánuðum. Hörð barátta var um 1. sætið en það var Örlygur Smári og Eurobandið sem unnu sigur að lokum með lagið This is my life. Það lag mun lifa lengi í minningu FÁSES-félaga en tveir félagar okkar, Flosi og Eiríkur, fluttu lagið eftirminnilega í coverlagakeppni aðdáendaklúbba í Vín vorið 2015 og sigruðu auðvitað!

Þessar 11 keppnir sem haldnar hafa verið frá 2006 hafa verið með svipuðu sniði, að Laugardagslögunum undanskildum, þó að einhverjar reglubreytingar hafi verið gerðar. Dómnefnd var kynnt til sögunnar í keppninni 2012 í bland við símakosningu og aðkoma RÚV að lögunum hefur verið breytileg þótt lagahöfundar fylgi lögum sínum eftir alla leið.

Við í FÁSES vonum auðvitað að Söngvakeppnin haldi áfram að lifa góðu lífi en styðjum við bakið á hverjum þeim keppanda sem fer fyrir okkar hönd í Eurovision hvernig svo sem hann er valinn. Nánar er svo hægt að lesa um sögu Söngvakeppninnar á vefnum Allt um Júrovisjon.