Höndlar hún að vera Eurovision-stjarna í tvær vikur? FÁSES tekur púlsinn á Elísabetu Ormslev

Elísabet Ormslev (Mynd: RÚV).

Elísabet Ormslev (Mynd: RÚV).

FÁSES-liðar vilja að sjálfsögu velja þann keppanda sem höndlar það best að vera Eurovision stjarna í Stokkhólmi í tvær vikur og þann sem verður landi og þjóð til sóma. Munu keppendur Söngvakeppninnar höndla lélega tæknimenn, trítilóða Eurovision aðdáendur og hina fáranlega ströngu tímadagskrá Jónatans Garðarssonar? Til að ganga úr skugga um það fór FÁSES.is á stúfana og lagði sérhannað aðdáendapróf fyrir keppendur.

Elísabet Ormslev syngur Á ný eftir æskuvinkonu sína Gretu Salóme (þær lærðu saman á fiðlu þegar þær voru 4ja ára – krúttlegt!) á síðara undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2016. Þetta er annað lag Gretu Salóme í keppninni í ár en hún komast áfram í síðustu viku með lagið sitt Raddirnar. Elísabet komst á kortið hjá landsmönnum þegar hún tók þátt í The Voice í lok síðasta árs en Eurovision aðdáendur ættu að þekkja mömmu hennar mjög vel en Elísabet er dóttir Helgu Möller sem keppti að sjálfsögðu fyrir Íslands hönd í Bergen 1986. Elísabet er mikill aðdáandi Eurovision (but of course!) og gríðarlega fagmannlegur snappari (hún er með einkasnapp og opinbert snapp fyrir sig, snapp fyrir Hárvörur.is, hún hefur verið með Smáralindarsnappið, RÚVsnappið, Maybellinesnappið og fleira og fleira). Þessi 22ja ára drífandi söngdíva réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kom að Zumbaprófinu. Elísabet heimtaði að velja sér lag og valdi að sjálfsögðu lagið sem er með erfiðustu danssporin!