Höndla þau að vera Eurovision-stjörnur í tvær vikur? FÁSES tekur Siggu Eyrúnu og Kalla tali

Sigga Eyrún stuðpía (Mynd: RÚV).

Sigga Eyrún stuðpía (Mynd: RÚV).

Áfram höldum við yfirferð FÁSES.is yfir þann keppenda Söngvakeppninnar 2016 sem höndlar það best að vera Eurovision stjarna í Stokkhólmi í tvær vikur og þann sem verður landi og þjóð til sóma. Munu keppendur Söngvakeppninnar höndla lélega tæknimenn, trítilóða Eurovision aðdáendur og hina fáranlega ströngu tímadagskrá Jónatans Garðarssonar? Til að ganga úr skugga um það fór FÁSES.is á stúfana og lagði hraðaspurningapróf fyrir keppendur.

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, eða bara Sigga Eyrún eins og við köllum hana, keppir á fyrra undanúrslitakvöldinu í Söngvakeppninni með lagið Kreisí. Lagið er eftir Karl Olgeirsson og textinn eftir hann og Siggu Eyrúnu. Kreisí-teymið hefur gefið út flott myndband við lagið sem ber metnað þeirra hjóna gott vitni. Eins og við munum öll keppti Sigga Eyrún í Söngvakeppninni 2014 með lagið Lífið kviknar á ný og komst svo langt að há einvígi við Pollapönkarana, sem sigruðu með lagið Enga fordóma. Þegar við náðum tali af Siggu Eyrúnu og Kalla var eins og þau höfðu aldrei gert neitt annað en að undirbúa sig fyrir Söngvakeppnina og Eurovision – fagmennskan gjörsamlega lak af þeim! Við fengum m.a. að heyra að á sviðinu verður lítil stelpa að spila tölvuleik og dragdrottningin úr myndbandinu lætur einnig sjá sig. Grafíkin í bakgrunninum verður Pacman en þar sem hann má ekki vera gulur vegna réttindamála verður hann í regnbogafánalitunum.

Við hvetjum lesendur einnig til að kíkja á ensku útgáfuna af laginu – hana má finna hér.