Sænskur sigur í Eurovision – Ýmsar staðreyndir varðandi úrslitin í ár

Til hamingju Svíþjóð frá FÁSES

TH15-1017

Mynd: Thomas Hansen (EBU)

 

TH15-1015

Mynd: Thomas Hansen (EBU)

Nú er Eurovision 2015 lokið með sigri Svía. Margir vilja meina að nú taki við hið svokallaða PED (Post-Eurovision-Depression), en til að koma í veg fyrir að það gerist alveg strax eru hér nokkrar skemmtilegar og áhugaverðar staðreyndir um úrslitin í ár.

Undankeppnirnar

  • Lettland komst í fyrsta skiptið í úrslitin síðan 2008, og náði hvorki meira né minna en öðru sætinu í fyrri undankeppninni.
  • Þetta er í fyrsta skiptið síðan undankeppnirnar voru teknar upp sem allar baltnesku þjóðirnar (Eistland, Lettland og Litháen) eru með í úrslitunum.
  • Azerbaijan gaf Íslandi 5 stig í undankeppninni. Er þetta í fyrsta skiptið sem Azerbaijan gefur Íslandi stig yfir höfuð, en Aserar tóku fyrst þátt árið 2008 og hafa verið með Íslendingum í undanriðli síðan 2011.  Það má þó benda á að í ár voru eingöngu dómaraatkvæði hjá Aserum, þar sem símakosningin var víst dæmd ógild.
  • Svíar fengu settu stigamet í undankeppninni. Svíar fengu 217 stig, en næstmesti stigafjöldi er frá 2009 þegar Norðmenn fengu 201 stig með lagið Fairytale og svo fengu Svíar 181 stig árið 2012 með lagið Euphoria.
  • Topp 10 í hvorri undankeppni var frekar afgerandi. Í fyrri undankeppninni voru 21 stig sem skyldi að 10. og 11. sætið og í seinni undankeppninni voru það 10 stig sem skyldu að 10. sætið og 11. sætið.

Úrslit

  • Þetta er í fyrsta skiptið síðan 2009 sem að karlkyns sólósöngvari vinnur Eurovision.
  • Svíar náðu í ár þriðja besta stigafjölda í sögu Eurovision. Måns Zelmerlöv með 365 stig, 7 stigum minna en Loreen árið 2012 og 12 stigum minna en Alexander Rybak árið 2009.
  • Þetta er í fyrsta skiptið síðan 2012 sem 300 stiga múrinn er sprengdur.
  • Einnig er þetta í fyrsta skiptið sem að tvö lög komast yfir 300 stig í sömu keppni (Svíþjóð 365, Rússland 303 stig).
  • Ítalir lentu í þriðja sæti með 292 stig, sem er tveimur stigum meira en sigurlag Austurríkismanna fengu í fyrra.
  • Svíar og Ítalir einu löndin sem fengu stig frá öllum keppnisþjóðum.
  • Lögin í 4. – 8. sæti fengu öll meira en 100 stig, 9. sætinu vantaði 3 stig uppá að ná í hundraðið. En 10. sætið (Serbía) fékk einungis 53 stig, sem er lægsti stigafjöldi sem nokkuð lag inn á topp 10 hefur fengið síðan undankeppnirnar voru teknar upp.
  • Fyrsta skiptið síðan 2003 sem lag í úrslitum fær 0 stig. (Tékkland fékk þó 0 stig árið 2009, en það var í undanúrslitunum).
  • Í ár voru það þó tvö lög sem fengu sem fengu 0 stig og er það í fyrsta skiptið síðan 1997 sem að það gerist.
  • Þetta er í fyrsta skiptið sem að gestgjafaþjóðin hlýtur 0 stig í úrslitunum.
  • Í ár voru öll lögin sem vermdu 4 neðstu sætin frá löndum sem komast sjálfkrafa í úrslitin.
  • Svíar fengu samtals 12 tólfur. Er það jafn mikið og sigurlagið frá Austurríki hlaut í fyrra. Þetta er þó 6 tólfum frá meti Svía frá 2012, þegar Loreen hlaut hvorki meira né minna en 18 tólfur.

Það væri eflaust hægt að telja upp miklu fleiri staðreyndir varðandi úrslitin ár, þar sem ýmislegt áhugavert og stundum frekar undarlegt fylgdi keppninni í ár. En við ætlum að láta þetta gott heita í bili og mælum við eindregið með því að horfa aftur á keppnirnar til þess að minnka aðeins PED áhrifin.