Reynsluboltar: Þau sem fá ekki nóg af Eurovision

Eurovision getur verið ávanabindandi, það er ekki hægt að neita því. Og það á ekki einungis við aðdáendurna heldur keppendurna líka. Á hverju ári er alltaf jafn spennandi að sjá hvaða fyrri keppendur hafa ákveðið að freista gæfunnar á nýjan leik, árið í ár er engin undantekning. Það er því ekki úr vegi að fjalla aðeins um þá keppendur í ár sem hafa reynslu af Eurovision frá fyrri árum.

Amber frá Möltu er alls enginn nýgræðingur þegar kemur að þátttöku í Eurovision, þá sérstaklega hvað varðar forkeppnina heima í Möltu þar sem hún var að taka þátt í fimmta skiptið í ár. En þetta er heldur ekki fyrsta skiptið sem Amber stendur á stóra sviðinu. Hún var nefnilega ein af bakröddunum hjá hinum fótalipra Kurt Calleja sem keppti fyrir hönd Möltu árið 2012.

Malta 2012 – This is the night – Kurt Calleja

 

Aserar mæta til leiks með annan helminginn úr dúóinu Elnur og Samir sem voru fyrstu þátttakendur Asera í Eurovision. Það er þó með sanni hægt að segja að hann Elnur hafi breytt aðeins um stefnu í ár miða við fyrri þátttöku sína. Það eru eflaust fáir Eurovision aðdáendur sem geta gleymt atriði Asera árið 2008, en bara svona til öryggis þá skulum við rifja það upp. Bara svona til að hafa það á hreinu þá er Elnur engillinn 🙂

Azerbaijan 2008 – Day after day – Elnur & Samir

 

Nágrannarnir í Armeníu eru líka með einn reynslubolta á sínum snærum, en það er hún Inga Arshakyan. Inga er í ár einn af meðlimum Geneology hópsins, en Inga tók fyrst þátt með systur sinni Anush fyrir hönd Armeníu árið 2009.

Armenía 2009 – Jan Jan – Inga & Anush

 

En það eru ekki alltaf bara aðalsöngvararnir sem mæta aftur. Í ár erum við líka með nokkra lagahöfunda sem hafa átt lög í keppninni áður.

Þar verður maður að minnast á hinn serbneska Zeljko Joksimovic, en ásamt því að hafa samið lög Bosníu-Hersegóvínu 2006 og Serbíu 2008 þá var hann flytjandi og höfundur fyrir Serbíu & Svartfjallaland 2004 og Serbíu 2010 ásamt því að hafa verið kynnir þegar keppnin var haldin í Serbíu 2008.

Serbía & Svartfjallaland – Lane Moje – Zeljko Joksimovic

 

Annar lagahöfundur sem hefur áður keppt sem flytjandi er hin hollenska Anouk Teeuwe. Í ár er hún höfundur hollenska lagsins en hún tók þátt fyrir hönd Hollands bæði sem flytjandi og lagahöfundur árið 2013, en það var einmitt í fyrsta skiptið síðan 2004 sem að Holland var með í úrslitunum.

Holland 2013 – Birds – Anouk

 

Svo má auðvitað ekki gleyma henni Heru Björk okkar, en eins og allir ættu að vita þá er hún ein af bakröddunum okkar í ár. Fyrir utan að hafa verið flytjandi Íslands árið 2010 þá var hún í bakröddunum hjá Eurobandinu 2008 og Jóhönnu Guðrúnu 2009.

Ísland 2010 – Je ne sais quoi – Hera Björk