EKKI MISSA AF ÞESSUM! Semi-Final 1

Moldóvía

Það verður ekki annað sagt en að keppnin byrji með trukki! Moldóvía mætir með Eric Saade útfærslu á atriði – pall á sviðinu, vel útfærður dans með dash af þukli, gimmik og meira segja smá slagsmál. Moldóvísku búningarnir hafa vakið mikla athygli hér í Vín enda níðþröngir lögreglubúningar úr leðri og Eduard, eins og félagi okkar Måns frá Svíþjóð, í leðurbuxum. Kannski hefur Eduard lært eitthvað þegar hann var upphitunaratriði fyrir Tatu þar sem ekki verður annað sagt en að atriðið sé svolítið í stíl við Pólland á sviðinu (halló lóðréttar samfarahreyfingar!). Söngvarinn bregður síðan á leik með einum dansaranum sem rífur hann úr bolnum og Eduard er svo ánægður með það að hann tekur flik flak af pallinum sem þau eru með á sviðinu. Eini ókostur atriðisins hljóta að vera bakraddasöngkonurnar tvær sem halda því miður ekki alveg lagi.

Á blaðamannafundinum eftir aðra æfingu sínu hér í Vín var Eduard á einlægum nótum og þakklæti var honum efst í huga. Þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að gera eftir Eurovision sagðist hann ætla að taka aftur þátt í Eurovision. Póstkortið er áhugarvert en þar er Eduard sendur í eltingarleik á traktor. Ótrúlega skemmtilegt í ljósi þess að í myndbandinu gekk allt út á æsilegan bílaeltingarleik!

Mynd: FJÓ

Moldóvísku keppendurnir. Mynd: FJÓ

Armenía

Vá þetta atriði kom á óvart! Vel útfærð myndataka ásamt frábærri sviðsgrafík, fullkomnum söng og flottum búningum í etnískum anda (sérstaklega hjá Ingu Arshakyan frá Armeníu, söng Jan Jan árið 2009). Eins og flestir vita er atriðið til minningar um 100 ártíð þjóðarmorða Tyrkja á Armenum og hljómsveitin Genealogy samanstendur af fimm söngvurum af armenskum uppruna úr fimm heimsálfum ásamt einum frá Armeníu. Mjög áhrifaríkur hluti lagsins er þegar LED skjáirnir á sviðsgólfinu mynda heimskort og söngvaranir raða sér á það heimshluta þaðan sem þeir koma. Boðskapur lagsins (jú jú þetta er eitt af þeim lögum!) kemst því vel til skila í góðum flutningi og vel útfærðu atriði. Í stuttu máli er þetta algjört gæsahúðarlag! Eini ókostur lagsins er að viðlagið er ekki nógu sterkt og raddirnar fá ekki að njóta sín nægilega en framan af laginu er röddunin helsti styrkleiki lagsins.

Á blaðamannafundinum eftir æfinguna neistaði milli blaðamanninum sem stjórnaði viðburðinum og Essaï Altounian. Hann sagðist því miður ekki hafa séð mikið af Vín hingað til og væri bara aleinn á hótelherberginu sínu – eitthvað sem blaðakonunni þótti mjög áhugavert. Hann Essaï er fæddur í París en snerti streng í hjörtun viðstaddra þegar hann sagðist óska sér að hann væri fæddur í Armeníu.

Mynd: FJÓ

Armensku keppendurnir. Mynd: FJÓ

Belgía

Eitthvað virtist Loïc okkar stressaður þegar hann mætti á sína aðra æfingu í Wiener Stadthalle. Það fór þó fljótt af honum eftir fyrsta rennsli og ekki verður annað sagt en að Belgarnir séu að hitta naglann á höfuðið með atriði sínu í ár. Rhythm inside er nútímalegt popplag og útfærsla atriðisins eftir því. Danshreyfingarnar eru með róbótabrag þar sem farið er afturábak og áfram, og okkur þykja „hjartsláttardanssporin“ einkar eftirtektarverð. Loïc slær reyndar um sig og tekur einn balletsnúning á sviðinu og grípur um andlitið, hreyfing sem kannski á uppruna sinn í einhverjum Sia myndbandanna en Sia er algjört idol hjá Loïc. Búningarnir er framúrstefnulegir – allt við atriðið öskrar á okkur að Eurovision er komið inn í 21. öldina (klapp fyrir því!). Loïc er í herralegum frakka á sviðinu og er því, öfugt við íslenska atriði, klæddur upp í aldri. Eitt eiga þau þó sameiginlegt, Loïc og María, og það er að þau liggja bæði á sviðinu og reyndar bakraddir Loïc í lok atriðisins – þetta er kannski að verða eitthvað þema í Eurovision? Eini ókosturinn við belgíska framlagið, ef það ætti að nefna eitthvað, er að myndatökuskotin þegar Loïc liggur mættu vera betri. Í heildina er hér þó um glæsilegt gæsahúðarlag að ræða!

belgía

Belgíska liðið. Mynd: FJÓ

Á blaðamannafundinum var Loïc spurður hvort hann væri að fá svona mikla athygli í Vín út á ungan aldur sinn, það væri trendið í ár. Loïc svaraði þessu mjög vel og sagði að þetta væri ekki spurning um aldur heldur ástríðu fyrir tónlistinni. Hann var einnig hvattur til að brosa meira þar sem hann hefði svo fallegt bros.

Eftir þetta fengu FÁSES liðar athyglisbrest því lögin í Semi Final 1 eru …. hvað skulum við segja…. ekki mjög fjölbreytt!