Næst á dagskrá hjá FÁSES

Það þýðir víst ekki sitja með hendur í skauti og sífra um SSPD (öðru nafni Söngvakeppni-Sjónvarpsins-Post-Depression, náskylt hinu þekkta ástandi EPD, Eurovision-Post-Depression). Heldur betur ekki! Þó Söngvakeppnin hafi lokið sér af þetta árið er FÁSES með fullt á prjónunum fyrir komandi Eurovision vertíð til að allir áhugasamir hafi nóg við að vera.

Næst á dagskrá hjá FÁSES:

14. mars verður sameiginleg áhorf á úrslit Melodifestivalen. Stjórn FÁSES hefur sitthvað fleira í pokahorninu fyrir kvöldið svo þið skulið fylgjast grannt með!

30. mars, 31. mars og 1. apríl stormar FÁSES upp í Efstaleiti þar sem Alla leið þættirnir verða teknir upp hjá RÚV. Eins og undanfarin ár verða tveir þættir teknir upp mánudaginn og þriðjudaginn en síðasti þátturinn á miðvikudeginum. Upptökurnar hafa undanfarin ár verið eftir hádegi. Þeir sem vilja vera memm í upptökunum skulu senda nafn og símanúmer á ogae.iceland@gmail.com með fyrirsögninni “Skráning í Alla leið 2015”.

Í apríl er ætlunin að bjóða til Júró-stikla 2015. Hér gefst félagsmönnum og öðrum áhugasömum gullið tækifæri til að hlusta á brot úr öllum 40 Eurovision-framlögunum 2015 og kjósa um besta lagið. Þetta er viðburður sem heppnaðist agalega vel í fyrra og við hlökkum til að sjá enn fleiri þetta árið.

Í byrjun maí er áætlað að Fréttabréf FÁSES komi út.

21. maí ætlar FÁSES að blása til upphitunarpartýs í Vín fyrir seinni undankeppni Eurovision sem Ísland mun taka þátt í. Ef þú ert að fara til Vínar í maí endilega sendu póst á ogae.iceland@gmail.com og við bætum þér í Facebook hópinn okkar “Vínarfarar frá FÁSES”.

FÁSES hafa borist fyrirspurnir síðustu daga um möguleika á miðum á Eurovision 2015 í Vín. Miðasala til aðdáenda (og þar með FÁSES meðlima) fór fram í október sl. og því miður hefur FÁSES enga aukamiða undir höndum. Upplýsingar um almenna miðasölu Eurovision er að finna á eurovision.tv.